Barátta Það var hart tekist á í leik Víkings og Leiknis í Víkinni í gær þar sem Leiknir hafði betur.
Barátta Það var hart tekist á í leik Víkings og Leiknis í Víkinni í gær þar sem Leiknir hafði betur. — Morgunblaðið/Ómar
HAUKAR eru á góðri siglingu í 1. deildinni en Hafnarfjarðarliðið vann mikinn baráttusigur á Skagamönnum á Akranesvelli í gærkvöldi. 1:0 urðu lokatölurnar og Haukarnir eru í góðum málum í 2. sæti deildarinnar, fimm stigum á undan KA-mönnum, en Selfyssingar tróna á toppi deildarinnar.

Eftir Guðmund Hilmarsson

og Stefán Stefánsson

Það var blaðburðardrengurinn Úlfar Hrafn Pálsson sem tryggði Haukunum sigurinn þegar hann skoraði eina mark leiksins strax á 4. mínútu. Haukur er tvítugur að aldri og lætur sig ekki muna um að bera út Morgunblaðið á hverjum morgni.

„Þetta var ótrúlega sætur sigur og það er góður gangur á okkur þessa dagana,“ sagði Andri Marteinsson, þjálfari Hauka, við Morgunblaðið, eftir sigurinn á ÍA. Spurður hvort leiðin lægi upp í efstu deild sagði Andri: „Við settum okkur markmið eftir fyrri umferðina og það var að ná sæti í Pepsi-deildinni. Það hefur ekkert breyst og ég tel okkur alveg hafa burði til þess að ná þessu markmiði. Við erum ekkert síðri en öll liðin í deildinni og nú er það bara undir drengjunum komið hvort við förum upp eða ekki. Sigurinn á Skagamönnum var mikill baráttusigur og hann gefur okkur byr undir báða vængi,“ sagði Andri.

Skipulag Leiknis gekk upp

„Svakalega er gaman að koma hingað í Víkina og taka þrjú stig, það er ekki oft sem það gerist og draumurinn að skora tvö mörk. Það er ekkert skemmtilegra en að geta tryggt liðinu sínu sigur enda gerir maður hvað sem er fyrir klúbbinn,“ sagði Ólafur Hrannar Kristjánsson, sem skoraði bæði mörk Leiknis í 2:1-sigri í Víkinni í gærkvöldi. Með sigrinum stukku Breiðhyltingar upp í 4. sæti deildarinnar en Fossvogsbúar verða að sætta sig við það sjöunda.

Leiknir fékk fyrsta færi leiksins en hálftími leið áður en Víkingar fóru að feta sig nær marki Leiknis og skapa sér færi. Þau voru hins vegar fæst hættuleg því vörn Leiknis barðist vel. Á 61. mínútu fékk Víkingurinn Grétar Ali Khan sitt annað gula spjald og var vikið af velli en það virtist vekja Víkinga, sem sóttu af meiri krafti enda fóru þeir loks að vanda sóknarleikinn. Leiknismenn hins vegar sættu færis og Ólafur Hrannar skoraði á 74. mínútu eftir snarpa sókn. Marteinn Briem jafnaði fjórum mínútum síðar en hann kom inn á sjö mínútum áður. Víkingar héldu áfram að sækja en fóru svo út í að halda fengnum hlut og það kann sjaldnast góðri lukku að stýra enda sóttu Leiknismenn stíft þar til Ólafur Hrannar skoraði aftur. Það gekk því allt upp samkvæmt markahróknum. „Við komum skipulagðir til leiks, vorum þéttir fyrir og héldum Víkingum vel frá okkur svo þeir komust ekki í mörg færi, en svo sóttum við hratt og Víkingar voru í basli með það. Við bara gerðum það sem við þurftum að gera,“ hélt Ólafur Hrannar áfram, ánægður með gengi liðsins. „Við settum okkur ekki markmið fyrir mótið, ætluðum bara að mæta í það, sem gekk ekki vel fyrstu leikina. Svo tókum við gott spjall og ákváðum að taka einn leik fyrir í einu, sem hefur gefist vel. Við höfum bara tapað einum af ellefu síðustu, sem segir sitthvað um hvað þetta lið getur gert.“

Leifur S. Garðarsson, þjálfari Víkinga, var eðlilega ekki sáttur. „Við vorum betri ellefu og líka tíu en þeir skoruðu fleiri mörk. Við ætluðum að vera þéttir í vörninni og sækja svo en ég ætla ekki að falla í þá gryfju að segja að við séum miklu betra lið því Leiknir vann. Við vorum með boltann 85% af leiknum en við verðum að nýta færin til að vinna leik, þetta gengur út á að skora fleiri mörk en hinir og vera vakandi í varnarleiknum. Við gáfum mörk og gerðum ekki út um færin okkar,“ sagði Leifur eftir leikinn.