Katrín Jónína Óskarsdóttir
Katrín Jónína Óskarsdóttir
Eftir Katrínu Jónínu Óskarsdóttur: "Mér misbýður framsetning baráttunnar og tel mig hafa fullan rétt á þeirri skoðun."

„ÓTTALEGT nudd er þetta,“ kýs ritari Staksteina að setja sem yfirskrift á pistil sinn í Morgunblaðinu 12. ágúst sl. Í grein, sem fór fyrir brjóstið á hinum víðsýna og umburðarlynda Staksteinahöfundi, gagnrýndi ég myndbirtingu Morgunblaðsins, þar sem klæðafá dragdrottning og borgarstjórinn í Reykjavík undirrita samstarfssamning. Hann segir borgarstjórann nota framboðið bak hennar sem „skrifborð“. Í lokin spyr hann hvort þeir sem berji sér á brjóst og boði umburðarlyndi glími ekki við mestu fordómana?

Staksteinahöfundur hefur annaðhvort ekki skilið inntak greinar minnar eða misskilið það viljandi. Ég styð réttindabaráttu samkynhneigðra og er sammála málstað þeirra að ýmsu leyti. En mér misbýður framsetning baráttunnar og tel mig hafa fullan rétt á þeirri skoðun. Framsetningin stangast nefnilega á við það sem ég hef talið eðlilega háttvísi og mannasiði.

Getur verið að svo sé komið fyrir okkur að við þorum ekki að láta í okkur heyra ef okkur er misboðið, af ótta við að vera dæmd fordómafull?

Ég endurtek að ég styð margt í baráttu samkynhneigðra en ég áskil mér fullan rétt til að gagnrýna sumt í framsetningu þeirra vegna þess að ég vil búa í siðuðu samfélagi þar sem við komum fram við hvert annað af háttvísi og virðingu.

Staksteinahöfundur mætti einnig íhuga hvort það sé virðing fyrir skoðunum lesenda Morgunblaðsins að nota yfirskrift Staksteina til að snúa út úr starfstitli mínum.

Höfundur er nuddari og jógakennari.