Púsl og bækur Bína brallar ýmislegt forvitnilegt en bókin Bína lærir orð, hljóð og stafi byggist á þeirri hugmyndafræði að vinna með undirstöðuþætti fyrir lestur.
Púsl og bækur Bína brallar ýmislegt forvitnilegt en bókin Bína lærir orð, hljóð og stafi byggist á þeirri hugmyndafræði að vinna með undirstöðuþætti fyrir lestur.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Grunn að góðum náms- og samskiptavenjum má leggja með því að kenna ungum börnum viðeigandi boðskipti eins og að sitja kyrr, hlusta og taka tillit. Ásthildur B.J. Snorradóttir, talmeinafræðingur hjá Talþjálfun Reykjavíkur, hefur þróað ákveðnar aðferðir við slíka kennslu.

Eftir Maríu Ólafsdóttur

maria@mbl.is

Mig langaði til að koma þeirri hugmyndafræði sem ég vinn eftir sem talmeinafræðingur inn í barnabækur til að hjálpa börnum til að ná meiri árangri og líða betur. Þannig urðu Bínubækurnar til meðfram starfi mínu en sú þriðja, Bína lærir orð, hljóð og stafi kom út fyrir jólin í fyrra. Ég vinn með börn á öllum aldri og með alls konar frávik en það sem öll börn þurfa að læra eru viðeigandi boðskipti sem mörg hver kunna ekki, eins og að hlusta, bíða, gera til skiptis, setja sig í spor annarra og muna hvað er sagt. Mínar hugmyndir byggjast á hugmyndafræði um snemmtæka íhlutun sem margir sérfræðingar tala um og þýðir einfaldlega að byrja að vinna með börn með frávik nógu snemma til þess að ná árangri og draga úr og jafnvel koma í veg fyrir námsörðugleika,“ segir Ásthildur.

Undirstöðuþættir lesturs

Bína lærir orð, hljóð og stafi byggist á þeirri hugmyndafræði að vinna með undirstöðuþætti fyrir lestur svo og á rannsókn sem Ásthildur gerði sem hluta af meistaranámi í Bandaríkjunum. Í rannsókninni sem var framkvæmd á Íslandi skoðaði hún tengsl á milli hljóðkerfisvitundar og lestrar sem hún segir að vísindamenn um allan heim hafi séð að skipti höfuðmáli að hafa til þess að börn nái góðum árangri í lestri. Í dag er lagt fyrir í leikskólum skimunartæki sem heitir Hljóm 2 en það sér strax hvaða börn eru í áhættuhópi fyrir lestrarörðugleika og þannig er hægt að draga úr slíkum örðugleikum með réttum aðferðum strax í leikskóla. „Það hefur orðið algjör vitundarvakning hvað þetta varðar innan skólanna og námsefnið Ljáðu mér eyra og Tölum saman sem ég hef unnið með öðrum talmeinafræðingum er mikið notað í leik- og grunnskólum til að hjálpa börnum með lestrarörðugleika. Grunnskólakennarar eru líka að verða æ hrifnari af Bínubókunum enda hefur komið í ljós að mörg börn í fyrsta bekk búa ekki yfir þeirri grunnfærni sem þar er kennd og getur auðveldað kennsluna. Ung börn læra best í gegnum leik og því nota ég líka spil með bókunum sem er skemmtilegt myndalottó sem æfir þessa grunnþætti og lítið plakat þar sem maður kennir börnunum að ná betri stjórn á líðan og hegðun í gegnum viðeigandi boðskipti,“ segir Ásthildur.

Foreldrar og fagfólk sameinað

Nú í september verður haldin ráðstefna á vegum Bókaútgáfunnar Sölku og Ásthildar þar sem fyrirlesarar af ýmsum sviðum halda fyrirlestra. Þar mun meðal annars verða fluttur fyrirlestur frá kennurum á menntavísindasviði þar sem þeir vinna að því að þróa skimunartæki til að nota í fyrsta bekk í grunnskóla til að finna hvaða undirstöðuþættir skipta mestu máli í lestarferlinu. Að ráðstefnunni koma einnig leikskólar sem vinna eftir hugmyndafræðinni í Bínubókunum og öðru efni eftir Ásthildi. Þannig munu aðilar frá leikskóla sem er forystuskóli fyrir tvítyngi koma inn á tvítyngd börn og málörvun.

Einnig verður fjallað um málörvunarhópa innan grunnskóla sem vinna eftir hugmyndafræðinni. Loks mun Ásthildur kynna hugmyndafræðina á bak við Bínubækurnar og skilgreina fyrir fólki hvað sé snemmtæk íhlutun og koma inn á rannsóknir henni tengdar. Ásthildur segir markmiðið að ná foreldrum inn á ráðstefnuna ásamt fagfólki og leiða þannig saman íslenskt hugvit af ólíkum sviðum.