Jón Viðar Matthíasson
Jón Viðar Matthíasson
Eftir Sigurð Boga Sævarsson sbs@mbl.

Eftir Sigurð Boga Sævarsson

sbs@mbl.is

HJÁ Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og sveitarfélögunum er verið að leggja lokahönd á gerð áætlana um hvernig tryggja megi órofna lykilþjónustu sveitarfélaganna komi til þess að inflúensufaraldur valdi miklum forföllum meðal starfsfólks.

„Við viljum tryggja að viðbrögð og allar áætlanir séu með sambærilegum hætti á öllu svæðinu,“ segir Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri.

Lögð er áhersla á að starfsemi veitna, strætisvagna, skóla, heimahjúkrunar, heimaþjónustu og slökkviliðs verði í gangi. Framkvæmdastjórar sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu fólu slökkviliðsstjóra, sem formanni almannavarnanefndar svæðisins, að samhæfa viðbrögð á grundvelli sérstakra svæðisáætlunar. „Miðað er við að starfsmenn ólíkra stofnana hvers sveitarfélags geti hlaupið í skarðið vanti fólk til mikilvægra starfa vegna forfalla. Einnig að starfsmenn eins sveitarfélags geti aðstoðað í því næsta sé þörf á slíku. Fólk hefur verið opið fyrir þessu og vill allt leggja sig fram,“ segir Jón Viðar. Hann bætir við að haft hafi verið náið samstarf við sóttvarnalækni og fleiri í þessu verkefni.

Hjá ríkislögreglustjóra hefur, að sögn Rögnvaldar Ólafssonar, verkefnisstjóra í almannavarnardeild, verið unnið víðtækt undirbúningsstarf vegna aðsteðjandi hættu. Í samstarfi við matvöruverslanakeðjur, olíufélög og fleiri, hafa verið settar upp áætlanir sem miðast við að hægt verði, við verstu kringumstæður, að halda að minnsta kosti einni verslun opinni í hverju borgarhverfi. Þá verði tryggt að matarsendingar út á land stöðvist ekki.