Eftir Agnesi Bragadóttur og Magnús Halldórsson STJÓRNANDSTÖÐUFLOKKARNIR settu sig upp á móti breytingartillögum á frumvarpi vegna ríkisábyrgðar á lánum Tryggingasjóðs innistæðueigenda vegna Icesave-reikninga Landsbankans sem gerðu ráð fyrir að ekki mætti...

Eftir Agnesi Bragadóttur

og Magnús Halldórsson

STJÓRNANDSTÖÐUFLOKKARNIR settu sig upp á móti breytingartillögum á frumvarpi vegna ríkisábyrgðar á lánum Tryggingasjóðs innistæðueigenda vegna Icesave-reikninga Landsbankans sem gerðu ráð fyrir að ekki mætti greiða meira árlega en sem næmi 3,5 prósent af landsframleiðslu. Fimm manna nefnd lögfræðinga, undir stjórn Eiríks Tómassonar prófessors, setti saman tillögurnar um fyrirvara vegna ríkisábyrgðarinnar að ósk fjárlaganefndar í gær.

Stjórnarandstöðuflokkarnir töldu 3,5 prósent alltof hátt og vildu fulltrúar þeirra í fjárlaganefnd, einkum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokksins, takmarka greiðslurnar við 2 til 2,2 prósent af landsframleiðslu. Þá vildu þeir einnig setja fyrirvara um að ef enginn hagvöxtur yrði þá yrði ekki greitt út til Hollendinga og Breta.

Hvergi haggað við auðlindum

Einnig var um það rætt á fundi fjárlaganefndar í gær, og innan þingflokkanna, að greiðslur vegna ríkisábyrgðarinnar yrðu alltaf í takt við þróun efnahagsmála hér á landi. Stjórnarandstaðan sótti fast að greiðslur vegna ríkisábyrgðarinnar yrðu í takt við þróun efnahagsmála og möguleiki væri á því að fella niður eftirstöðvar skulda.

Breytingartillögurnar á Icesave-frumvarpinu, sem voru til umræðu í fjárlaganefnd í gær fram á nótt og deilt var um í þingflokkum, eru birtar í Morgunblaðinu í dag. Í þeim kemur meðal annars fram að hvergi sé haggað við óskoruðum yfirráðum Íslands yfir auðlindum landsins og rétti handhafa íslensks ríkisvalds til að kveða á um auðlindanýtingu og eignarhaldi á náttúruauðlindum.

Þá segir að ekki hafi fengist úr því álitaefni skorið, „hvort aðildarríki EES-samningsins beri við kerfishrun á fjármálamarkaði ábyrgð gagnvart innistæðueigendum vegna lágmarkstryggingar[...] Fáist úr því skorið í máli um það eða sambærilegt úrlausnarverkefni að slík skuldbinding hvíli ekki á Íslandi eða öðrum ríkjum EES-samningsins“ skal möguleiki vera fyrir hendi á því að taka viðræður upp að nýju.

  • Deilur um Icesave | 4-6