Bóklestur Það er freistandi að sökkva sér í haf bóka en sumum getur reynst erfitt að læra að lesa og þurfa á hjálp að halda.
Bóklestur Það er freistandi að sökkva sér í haf bóka en sumum getur reynst erfitt að læra að lesa og þurfa á hjálp að halda. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er brýnt að kennarar og forvígisfólk menntamála bregðist við þeim upplýsingum sem fást af myndum sem teknar eru af heila með stafrænni segulómun, en þær upplýsingar sýna að þétt og rækileg lestrarkennsla sem byggist á markvissri hljóðrænni þjálfun,...

Það er brýnt að kennarar og forvígisfólk menntamála bregðist við þeim upplýsingum sem fást af myndum sem teknar eru af heila með stafrænni segulómun, en þær upplýsingar sýna að þétt og rækileg lestrarkennsla sem byggist á markvissri hljóðrænni þjálfun, breytir ekki aðeins formgerð þekktra lessvæða í heilanum, heldur einnig varanlegri virkni þeirra og nemendur verða læsir,“ að sögn Guðríðar Öddu Ragnarsdóttur, atferlisfræðings og kennara, sem samdi efnið Læs í vor. Það er sérstaklega hannað til að kenna það samband sem er milli málhljóða og bókstafa.

Um 150 atkvæði á mínútu

Guðríður Adda talar um að með markvissri hlustun, framburði og ritun læra nemendur að kveða að bókstöfum og blanda saman málhljóðum svo úr verði orð. „Það kallast samsett hljóðaaðferð. Efnið samanstendur af afmörkuðu prógrammi hljóðrænna tækniæfinga. Kennslan er fínstillt að þörfum hvers nemanda og aðaláherslan lögð á mikla og markvissa æfingu. Þeir sem ljúka prógramminu og hafa leiknina á hraðbergi eru orðnir tæknilega læsir. Það þýðir að þá geta þeir lesið um 150 atkvæði upphátt á einni mínútu. Þegar nemendur hafa náð slíkri verkfærni, eru þeir tilbúnir til að lesa annað efni og þyngra sem æfir orðaforða þeirra og skilning.“

Hentar öllum

Guðríður Adda segir að efnið hjálpi þeim sem eru með dyslexíu og vilja fá lestur sinn leiðréttan. Það hjálpar einnig öllum börnum sem eru að byrja að læra að lesa. Guðríður Adda segir að hægt sé að nota efnið jafnt til að kenna einstaklingum eða hópum, börnum og fullorðnum og eins þeim sem eru af erlendum uppruna eða hafa fengið greiningu um einhverfu. „Læs í vor er matreitt samkvæmt aðferðum Beinna fyrirmæla og Hnitmiðaðrar færniþjálfunar. Það er útbúið í tveimur möppum, í annarri möppunni eru nákvæmar leiðbeiningar fyrir kennarann um hvernig kenna skuli hvert efnisatriði. Í hinni möppunni eru allar færniæfingarnar sem nemendur þurfa að glíma við til að ná markmiðinu. Auk þess fylgja efninu sérstök línurit – hröðunarkort – til að mæla árangurinn. Árangur og námsauki er mældur og skráður jafnóðum eftir hverja æfingu og sýndur myndrænt á línuritunum. Slík viðgjöf reynist áhrifarík hvatning. Kennarinn sér einnig strax hvernig kennslan skilar sér og byggir ákvarðanir sínar um áframhaldið á þeim upplýsingum. Stefnt er að því að framfarir hvers nemanda séu sem mestar og brattastar.“