Þemavika í skólanum Samkenndin í skólanum er mikil og bera eldri nemendur mikla umhyggju fyrir þeim yngri.
Þemavika í skólanum Samkenndin í skólanum er mikil og bera eldri nemendur mikla umhyggju fyrir þeim yngri.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Börn í Hraunvallaskóla eru 18 mánaða til 16 ára gömul, enda samanstendur skólinn af leikskóla og grunnskóla. Skólastjórar Hraunvallaskóla segja samstarfið ganga mjög vel og að samgangur á milli eldri og yngri nemenda sé mikill.

Eftir Svanhvíti Ljósbjörgu

svanhvit@mbl.is

Á Völlunum í Hafnarfirði leynist fallegur og sérstakur skóli sem nefnist Hraunvallaskóli, en sérstaða hans felst í því að þar geta börn gengið í skóla frá 18 mánaða aldri til 16 ára aldurs. Í skólanum er því leikskóli og grunnskóli í sömu byggingunni og heilmikill samgangur þar á milli. Ágústa Bárðardóttir er skólastjóri grunnskóla Hraunvallaskóla. Hún segir að samstarfið á milli leik- og grunnskóla hafi gengið mjög vel og í raun farið fram úr hennar björtustu vonum. „Við erum sífellt að þróa þetta betur og betur og frá því við fluttum inn í þetta skólahúsnæði þá var strax farið af stað með þróunarverkefni sem hefur nú verið í gangi í þrjú ár. Hraunvallaskóli er eini skólinn á landinu sem er sérstaklega hannaður með það í huga að í honum sé starfræktur leikskóli og grunnskóli, sem er mikill munur. Hraunvallaskóli er hannaður með hugmyndafræði einstaklingsmiðaðs náms að leiðarljósi og arkitektúr skólans tekur mið af því.Yngstu krakkarnir eru í sérhluta skólans en elstu krakkarnir á leikskólanum eru í raun komin inn í einn kennslukubb grunnskólans. Í vetur verða 10. bekkingar næstu nágrannar 5 ára krakkanna. Það eru ansi mörg ár þarna á milli en við erum bjartsýn á að þetta gangi vel.“

Skörp skil

Samgangur á milli leikskóla og grunnskóla er mikill og til að mynda borða öll börnin saman inni í matsal, reyndar í nokkrum hlutum, því skólinn er fjölmennur. „Svo hittast elstu krakkarnir á leikskólanum og yngstu krakkarnir í grunnskólanum einu sinni í viku og vinna saman að alls kyns verkefnum. Krakkarnir í 5. bekk undirbjuggu líka útskriftina hjá tilvonandi 1. bekkingum í vor og það kom einkar vel út,“ segir Ágústa sem telur að kostir þessa fyrirkomulags séu margir, enda er eitt af markmiðunum að draga úr þeim skörpu skilum sem myndast á milli leikskóla og grunnskóla. „Það er líka mjög í anda aðalnámskrárinnar, en þar er talað um að draga úr þessum skilum. Foreldrar líta á þetta sem ákveðinn kost að þau byrji hérna með börnin átján mánaða og þau fara út með þau 16 ára. Svo má ekki gleyma fjárhagslegu rökunum, en við spörum heilmikið á því að samnýta alls kyns hluti.“

Bera umhyggju fyrir yngri nemendum

Sigrún Kristinsdóttir, skólastjóri leikskóla Hraunvallaskóla, tekur undir orð Ágústu og segist finna að þetta fyrirkomulag veiti foreldrum mikinn styrk. „Það er oft sem foreldrar eru óöruggir þegar börnin fara í sex ára bekk en nú finnum við ekki fyrir því. Börnin byrja strax í Hraunvallaskóla þegar þau koma í leikskólann, stefnan og markmiðin eru þau sömu og þau aðlagast þannig að þegar þau fara í sex ára bekk þá eru þau í rauninni búin að vera í skólanum. Samvinnan er líka mikil og skemmtileg og systkini og vinir hittast hér á göngunum. Skólinn er í raun aldursblandaður og þá samsama börnin sig og samkenndin verður mikil. Við finnum til dæmis að eldri krakkarnir bera mjög mikla umhyggju fyrir litlu krökkunum,“ segir Sigrún og bætir við að ávinningurinn af þessu fyrirkomulagi skili sér líka til kennaranna. „Starfsfólk í leikskólanum og grunnskólanum er með sameiginlega kennarastofu og við sjáum því hvernig hinir kenna, sem er bara kostur. Við getum því lært heilmikið hvert af öðru.“

Kennt á opnum svæðum

Í Hraunvallaskóla er kennt á svokölluðum opnum svæðum og Ágústa talar um að í skólanum sé til dæmis svæði sem rúmi allt að 110 nemendur. „Við erum reyndar ekki með fullsetinn skóla núna þannig að við erum enn að dreifa úr okkur. Í haust fáum við til dæmis inn mjög stóran 1. bekk, um 80 börn og þá eru þau öll á einu svæði en hver bekkur er með sinn kennara,“ segir Ágústa sem finnst frábært að kenna á opnum svæðum. „Eftir að hafa prófað að kenna í opnu rými og vera í samstarfi við aðra kennara á svæðinu þá gat ég varla hugsað mér að snúa til baka og vera aftur kennari í lokaðri stofu. Þetta er allt öðruvísi upplifun og það eru vissulega margir kostir við að vera á opnu svæði en það á kannski ekki við alla.“

Læra best ef þau hafa áhuga

Í leikskólanum er einstaklingsmiðað nám sem Sigrún segir að hafi reynst vel. „Börnin fá svolítið að velja sér verkefni eftir sínu áhugasviði og til dæmis í smiðjuvinnunni fá þau að velja þá smiðju sem heillar þau mest. Börnin læra náttúrlega best þegar þau eru að gera það sem þeim finnst skemmtileg. Við erum líka með samkennslu þannig að árgangarnir læra svolítið hver af öðrum auk þess sem líka er kennt á opnum svæðum í leikskólanum. Svo njótum við góðs af því að vera í sama húsnæði og grunnskólinn, því hér er sameiginlegt bókasafn og íþróttahús sem er sérstaklega gott fyrir okkur því það eru ekki margir leikskólar með svo glæsilega hreyfiaðstöðu.“