14. ágúst 1784 Suðurlandsskjálftar. Miklir landskjálftar urðu þennan dag og tveimur dögum síðar í Árnessýslu og Rangárvallasýslu. Hundrað bæir hrundu til grunna, margt fólk var grafið upp úr rústunum og þrír týndu lífi.

14. ágúst 1784

Suðurlandsskjálftar. Miklir landskjálftar urðu þennan dag og tveimur dögum síðar í Árnessýslu og Rangárvallasýslu. Hundrað bæir hrundu til grunna, margt fólk var grafið upp úr rústunum og þrír týndu lífi. Þetta eru taldir mestu jarðskjálftar hér á landi, sá stærsti hefur verið áætlaður 7,5 stig. Flest hús í Skálholti skemmdust og í kjölfarið voru skóli og biskupsstóll fluttir til Reykjavíkur.

14. ágúst 1942

Bandarískar herflugvélar skutu niður þýska sprengjuflugvél sem stefndi til Reykjavíkur. Þetta var fyrsta óvinaflugvélin sem bandarískir hermenn skutu niður yfir Evrópu í síðari heimsstyrjöldinni.

14. ágúst 1975

Sverrir Runólfsson lagði slitlag á vegarkafla á Kjalarnesi með aðferð sem nefnd var blöndun á staðnum.

14. ágúst 1982

Furstahjónin af Mónakó, Grace Kelly og Rainer, komu í heimsókn til Íslands. Tvö börn þeirra, Carolina og Albert, komu með þeim. Grace lést í bílslysi mánuði síðar.

14. ágúst 2000

Rafmagnslaust var í Útvarpshúsinu við Efstaleiti í hálfa klukkustund vegna skemmdarverks á rafmagnstöflu. Útsendingar útvarps og sjónvarps féllu niður vegna þess að vararafstöð fór ekki í gang.

Dagar Íslands | Jónas Ragnarsson.