Náttúrufegurð Námsumhverfið á Hólum er sannarlega fallegt.
Náttúrufegurð Námsumhverfið á Hólum er sannarlega fallegt. — Morgunblaðið/Sigurður Ægisson
Diplómanám í ferðamálafræði er kennt við Hólaskóla – Háskólann á Hólum og veitir námið diplómagráðu í ferðamálafræði, landvarðar- og staðarvarðarréttindi.

Diplómanám í ferðamálafræði er kennt við Hólaskóla – Háskólann á Hólum og veitir námið diplómagráðu í ferðamálafræði, landvarðar- og staðarvarðarréttindi. Námið er kennt innan ferðamáladeildar háskólans en sem inntökuskilyrði þurfa nemendur að hafa stúdentspróf eða sambærilega menntun sem kennslunefnd skólans samþykkir.

Áhersla á menningu og náttúru

Markmið námsins er að undirbúa nemendur bæði fyrir störf í ferðaþjónustu og nám til bakkalárprófs í ferðamálafræðum við háskólann. Námið er afar margþætt og kemur meðal annars inn á þekkingu í ferðamálum, samskiptum og þjónustu. Áhersla er lögð á ferðaþjónustu sem tengist menningu og náttúru hvers svæðis, en námið er byggt á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Fjölbreyttum kennsluaðferðum er beitt sem miða að því að auka virkni nemandans og hvetja til sjálfstæðra vinnubragða. Hagnýt verkefni eru miðuð við raunverulegar aðstæður og eru stór hluti námsins, en þau byggjast bæði á fræðilegri og verklegri vinnu. Þá eru fyrirlestrar brotnir upp með tímaverkefnum og vettvangsferðir gegna einnig mikilvægu hlutverki í ákveðnum námskeiðum.