Gott smakk Krakkarnir fóru í vettvangsferð á Strikið þar sem tekið var vel á móti þeim.
Gott smakk Krakkarnir fóru í vettvangsferð á Strikið þar sem tekið var vel á móti þeim.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ný barnabók ætluð til jafnréttisfræðslu var nýlega gefin út en bókina þýddi Þórlaug Baldvinsdóttir leikskólakennari ásamt Helgu Maríu Þórarinsdóttur og fleiri samstarfsfélögum.

Eftir Maríu Ólafsdóttur

maria@mbl.is

Þær Þórlaug og Helga María starfa á leikskólanum Lundarseli á Akureyri þar sem bókin Þegar Friðrik var Fríða/Þegar Rósa var Ragnar hefur verið notuð til að skapa umræður um jafnrétti meðal barnanna. Bókin heitir á frummálinu Den dag da Frederik var Frikda/Den dag Rikke var Rasmus og var upphaflega gefin út af danska janfréttisráðherranum til að efla jafnréttisfræðslu meðal ungra barna í Danmörku.

Tenging í daglegt líf

„Upphaflega þýddum við bókina lauslega fyrir okkur hér innanhúss og það var mjög gaman að vinna með hana enda eiga krakkarnir auðvelt með að tengja efnið við sitt daglega líf þar sem þetta er saga af krökkum á sama aldri. Það er fullt af duldum atriðum í bókinni sem gaman er að spjalla um eins og til dæmis þegar Lísbet leikskólakennari hrósar stráknum sem vaknar sem stelpa fyrir hvað hann sé í fallegri peysu, eitthvað sem hún hafði aldrei gert áður. Það kom okkur á óvart hvað börnin voru opin að ræða málin og töldu kyn ekki eiga að loka á eitt eða neitt en hið sama átti ekki við þegar á reyndi. Þannig ákváðum við til dæmis að prófa að nota bleikar pollabuxur sem hér eru til næst þegar einhver gleymdi sínum buxum heima en í bókinni fer strákurinn í rauðar buxur. Þetta var alls ekki mögulegt þegar á reyndi og strákur gleymdi buxum heima svo við urðum að sækja þær grænu í staðinn. Þarna sáum við hvað börnin eru strax orðin mótuð af því hvernig umhverfið segir þeim að vera eftir kyni og að sjálfsögðu finnst okkur það miður. Á sama tíma vorum við hins vegar mjög montnar yfir því að á öskudaginn var fullt af stelpum sem komu klæddar eins og sjóræningjar og Superman og stigu þannig auðveldlega yfir einhvern ákveðinn kynjaþröskuld,“ segir Helga María.

Breyting á hugarfari

Unnið var með bókina í hópvinnu í ákveðinn tíma á dag auk þess að láta efnið falla hér og þar inn í daglegt líf á leikskólanum. Helga María segir þó að umræða um jafnrétti þurfi að vera regluleg og afmarkist ekki af tíma heldur almennu hugarfari sem þurfi að viðgangast. Til að mynda hafi verkefnið leitt af sér að starfsmenn fóru að líta í eigin barm og skoða hvort stelpum og strákum væri hrósað eins og fyrir sömu hlutina. „Bókin er sniðug hvernig sem fólk kýs að nota hana, lesa hana og spjalla um efnið í lokin eða fara dýpra ofan í pælingarnar. Hún getur jafnvel nýst fullorðnu fólk til að sjá hvort það geti gert eitthvað betur. Ásamt því að þýða bókina gerðum við einnig kennsluleiðbeiningar með henni þar sem finna má hugmyndir að spurningum, myndlistarverkefnum, tilraunum og vettvangsferðum en þessar leiðbeiningar er hægt að nálgast á heimasíðu Jafnréttisstofu. Vettvangsferðirnar slógu í gegn og fórum við í nokkrar skemmtilegar svoleiðis, til dæmis á veitingastað og bílaverkstæði þar sem börnin gátu séð hver sinnir hvaða starfi. Síðan var skemmtilegt að heyra að í matartímanum voru þau farin að spjalla sín á milli og einhver sagði til dæmis: Ég tók eftir því að mamma dældi bensíni á bílinn þegar við fórum í sund í gær,“ segir Helga María.