Kveðjustund Íbúar Stykkishólms héldu nunnunum kveðjuhóf en Franciskussysturnar hafa þjónað þar í rúm 80 ár.
Kveðjustund Íbúar Stykkishólms héldu nunnunum kveðjuhóf en Franciskussysturnar hafa þjónað þar í rúm 80 ár. — Morgunblaðið/Gunnlaugur Árnason
Eftir Gunnlaug Árnason Stykkishólmur | St. Franciskusreglan hefur sett sterkan svip á bæjarlífið í Stykkishólmi í tæp 80 ár og verið skapandi afl í heilbrigðisþjónustu og atvinnusögu Hólmara. Þeim kafla er nú að ljúka. St.

Eftir Gunnlaug Árnason

Stykkishólmur | St. Franciskusreglan hefur sett sterkan svip á bæjarlífið í Stykkishólmi í tæp 80 ár og verið skapandi afl í heilbrigðisþjónustu og atvinnusögu Hólmara. Þeim kafla er nú að ljúka. St. Franciskusreglan hefur ákveðið að hætta starfsemi í Stykkishólmi. Nunnurnar hafa verið kallaðar til annarra starfa erlendis. Á síðustu mánuðum hafa fjórar nunnur verið starfandi í Hólminum en þær flytja burtu alfarnar á næstu dögum. Þar með lýkur merku samstarfi St. Franciskusreglunnar, Hólmara og annarra Snæfellinga.

Frá því að St. Franciskusspítalinn tók til starfa í Hólminum árið 1936 hafa störf systranna haft mikil áhrif í Hólminum á svo margan hátt. Þær hafa rekið öflugt sjúkrahús. Þar hefur leiðarljósið verið metnaður og kærleikur. Þær hafa komið að mörgum öðrum verkefnum, t.d. starfrækt prentsmiðju, boðið upp á tómstundastörf fyrir unglinga og rekið leikskóla.

Hólmarar eiga mikið að þakka

Fyrir nokkrum dögum var systrunum haldið kveðjuhóf á St. Franciskusspítala. Þangað mætti fjöldi bæjarbúa til að kveðja systurnar og þakka þeim áratuga samfylgd.

Í kveðjuræðum kom fram að Hólmarar eiga þeim mikið að þakka. Án starfsemi þeirra væri margt öðruvísi í bæjarfélaginu. Klaustrið hefur verið kjölfestan í öllu starfi systranna og alls starfs sem systurnar hafa komið að í gegnum tíðina. Þær hafa getið sér gott orð meðal landsmanna og starfsemi þeirra aukið hróður Stykkishólms. Spítalinn hefur í mörg ár verið einn fjölmennasti vinnustaður bæjarins.

Þar sem reglan er að yfirgefa landið og hætta allri starfsemi hér á landi ákváðu stjórnendur reglunnar að stofna vináttu- og stuðningsfélag sem hefði það verkefni að styðja þá sem veita heilbrigðisþjónustu í Stykkishólmi til handa þeim sem á hjálp þurfa að halda vegna sjúkdóma. Sinnir sjóðurinn meðal annars verkefnum sem gera hlutaðeigandi kleift að stuðla að bata skjólstæðinga sinna og velferð starfsmanna. Enn fremur varðveitir sjóðurinn gögn sem vitna um sögu reglustarfsins í Stykkishólmi og hefur á annan hátt í heiðri minningu þess. Sem stofnfé leggja systurnar fram 5.000.000 kr. og fasteignina á Austurgötu 8 í Stykkishólmi. Stofnfé skal ávaxta og nýta vextina til styrkveitinga.

Á kveðjustund sýnir St. Franciskusreglan enn og aftur íbúum Stykkishólms og nágrennis hlýjan hug með stofnun Vináttu- og stuðningsfélag St. Franciskussystra.

Það er því með söknuði sem Hólmarar kveðja nunnurnar og um leið þakka þeir þeim áralanga þjónustu og vináttu.

Bláu systurnar komnar í staðinn

Fjöldi St. Franciskussystranna í Stykkishólmi hefur verið misjafn í gegnum tíðina. Flestar voru þær um tíma 16 talsins, en oftast hafa þær verið átta í einu. Fjórar þær síðustu eru semsagt farnar.

Frá því að spítalinn tók til starfa í Hólminum er talið að 53 nunnur hafi komið hingað til þjónustu.

Íbúar Stykkishólms verða ekki nunnulausir eftir brottför systranna. Til bæjarins eru komnar þrjár systur frá Maríureglunni, Bláu systurnar. Þær hafa starfað í Hafnarfirði, en hafa nú einnig fengið það verkefni að starfa í Stykkishólmi og sinna safnaðarlífi kaþólskra á Snæfellsnesi.