Staðið í ströngu Mikið hefur gengið á í starfi fjárlaganefndar.
Staðið í ströngu Mikið hefur gengið á í starfi fjárlaganefndar. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Allt kapp var lagt á að afgreiða breytingar á fyrirvörum við Icesave úr fjárlaganefnd í gær. Óskað var eftir breiðri samstöðu um málið sem virtist ekki ætla að nást seint í gærkvöldi.

Eftir Sigrúnu Rósu Björnsdóttur

sigrunrosa@mbl.is

„ÞETTA er ekki búið fyrr en það er búið,“ sagði Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, rétt fyrir síðasta fund nefndarinnar í gærkvöldi sem var um þá fyrirvara sem fyrirhugað er að setja við Icesave-frumvarpið. Guðbjartur sagði í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins í gær að þó að náðst hefði meirihluti ríkisstjórnarflokkanna um málið væri samt æskilegra að reyna að ná sem breiðastri sátt.

Samningurinn í uppnámi?

Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, þótti kallið eftir samstöðu koma nokkuð seint í gær þegar rætt var við hann í gærkvöldi.

Ekki væri hægt að fallast á ríkisábyrgðina á þeim forsendum sem lagt væri upp með. „Það þurfa að vera raunverulegir fyrirvarar við ríkisábyrgðina til þess að við höfum eitthvað um að tala og mér sýnist slíkir fyrirvarar vera í burðarliðnum. En þessari vinnu er langt í frá lokið.“

Andrúmsloftið innan Alþingishússins var spennuþrungið. Fundað var í hliðarherbergjum og mönnum jafnvel bókstaflega stillt upp við vegg. Orð eins og trúnaðarbrestur heyrðust falla eftir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknar, tjáði sig um fyrirvarana í beinni útsendingu í sjónvarpinu og sagði þá „svik við þjóðina“.

Var mikil óánægja með að hann skyldi þannig hafi rofið þann trúnað sem hefði átt að ríkja um vinnu fjárlaganefndar þar til henni væri lokið. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra vildi ekki tjá sig um ummæli Sigmundar Davíðs en sagðist telja að sýna ætti vinnu fjárlaganefndar og þeim trúnaði sem þar væri reynt að halda virðingu.

Áður hafði verið talið að það gæti verið meirihluti innan fjárlaganefndar fyrir samþykkt fyrirvaranna en eftir þær efasemdir sem menn létu í ljós í viðtölum dró úr þeirri vissu.

Varðandi það að það væri þungt hljóðið í minnihluta nefndarinnar þar sem ríkisstjórnin ætlaði sér að keyra málið í gegn sagðist Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra ekki hafa skilið það þannig.

„Það kom fram á þingflokksfundinum að sumir fulltrúar minnihlutans hefðu tekið tiltölulega vel í þá vinnu sem var kynnt í nefndinni í dag. Þannig að ég held að það sjái það allir að það er búið að leggja mikið á sig til að finna besta mögulega búning á málinu og þar með ná sem mestri samstöðu um það.“