Barist um dropann Íbúar hverfisins Sanjay Colony í Nýju-Delhí þyrpast að vatnsdreifibíl á vegum borgaryfirvalda. Aðgengi íbúa borgarinnar að vatni er mismikið og leita yfirvöld leiða til að bregðast við skorti í mörgum hverfum.
Barist um dropann Íbúar hverfisins Sanjay Colony í Nýju-Delhí þyrpast að vatnsdreifibíl á vegum borgaryfirvalda. Aðgengi íbúa borgarinnar að vatni er mismikið og leita yfirvöld leiða til að bregðast við skorti í mörgum hverfum. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Baldur Arnarson baldura@mbl.is HLUTI vatnsins í indversku grunnvatnsbólunum er jafnvel þúsunda milljóna ára gamalt. Hinn hlutinn er nýlegri uppsöfnun grunnvatns með vatnshringrásinni, þar sem úrkoman og yfirborðsvatnið seytla til jarðar.

Eftir Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

HLUTI vatnsins í indversku grunnvatnsbólunum er jafnvel þúsunda milljóna ára gamalt. Hinn hlutinn er nýlegri uppsöfnun grunnvatns með vatnshringrásinni, þar sem úrkoman og yfirborðsvatnið seytla til jarðar. Sumir droparnir sem bændur nota við áveitur í norðvesturhluta landsins eru mikli eldri en mannkynið.

Sá fjársjóður ferskvatns sem náttúran hefur eftirlátið Indverjum er nú að hverfa. Grunnvatnsstaðan á Norður-Indlandi lækkar með ógnvekjandi hraða. Aðeins á síðustu þremur árum hefur hún lækkað um metra. Það er gífurlegt magn á jafnstóru svæði.

Ef litið er til áranna 2002 til 2008 var gengið á grunnvatnið um sem svarar 109 rúmkílómetrum vatns. Það er tvöfalt meira magn en hægt er að geyma í stærsta vatnsforðabúri landsins og þrefalt meira en í Meadvatni, stærsta manngerða vatnsforðabúri Bandaríkjanna.

Grunnvatn gegnir lykilhlutverki: Átta af hverjum tíu lítrum sem Indverjar nota til heimilisnota koma þaðan.

Stefnir í óefni

„Ef ekki verður gripið til aðgerða til að tryggja sjálfbæra nýtingu grunnvatnsins gæti það haft þær afleiðingar að landbúnaðarframleiðslan hryndi og við tæki mikill skortur á drykkjarhæfu vatni,“ segir Matt Rodell, vatnafræðingur hjá NASA, í aðvörunarorðum eftir að niðurstöður rannsókna bandarísku tvíburahnattanna Grace lágu fyrir (sjá ramma).

Grunnvatnsbólin sem hraðast er gengið á eru í sambandsríkjunum Punjab, Haryana og Rajasthan.

Samkvæmt greiningu NASA er ásóknin meiri en sem nemur náttúrulegri endurnýjun. Til að bæta gráu ofan á svart var úrkoma yfir meðallagi á rannsóknartímabilinu sem þýðir að orsökin er ekki þurrkar.

Íbúafjöldinn er gríðarlegur; tæpar 56,5 milljónir í Rajasthan, 24,3 milljónir í Punjab og 21 milljón í Haryana. Samanlagt gera þetta rúmar 100 milljónir eða sem nemur gróft áætlað íbúafjölda Þýskalands, Svíþjóðar, Noregs, Danmerkur og Íslands.

Áætlað hefur verið að 70% ferskvatns í heiminum fari til landbúnaðar og má auðveldlega draga úr vatnssóuninni með því að innleiða svonefnda dropatækni við áveitur.

Innleiðing þeirrar tækni útheimtir hins vegar fjárfestingarkostnað sem óvíst er að fátækir indverskir bændur ráði við.

Indverjar eru því staddir í vítahring. Fólkinu fjölgar stöðugt. Indverjar er nú um 1.170 milljónir og því spáð að þeir fari fram úr Kínverjum, sem nú telja 1.340 milljónir, síðar á öldinni. Fleiri munnar kalla á meiri landbúnað sem eykur þrýstinginn á vatnsbólin. Á sama tíma er að byggjast upp millistétt sem er að tileinka sér neyslumynstur Vesturlanda. Það leiðir aftur til meiri vatnsnotkunar.

Til að gera vandann enn flóknari er ein orsök sóunarinnar sú að vatnið er ekki verðlagt sem skyldi. Blaðamaður New York Times gerði þetta að umtalsefni í sumar en þar sagði að ferskvatn væri 9,3 sinnum dýrara í Miami en í Nýju-Delhí og allt að 13,4 sinnum dýrara í Boston en í indversku höfuðborginni. Svo er vatn víða mikið niðurgreitt eða jafnvel ókeypis á Indlandi, sem er ekki til að ýta undir ábyrga notkun.

Blaðið vitnar til skýrslu markaðsrannsóknarfyrirtækisins Grail Research, sem sérhæfir sig í þróunarlöndum, en þar er því spáð að með sama áframhaldi muni Indverjar búa við mjög alvarlegan skort á drykkjarvatni eftir um fjóra áratugi.

Erfitt að breyta stefnunni

Það kann að hljóma langur tími en þá ber að hafa í huga að það er ekki áhlaupaverk að breyta notkuninni í jafn fjölmennu og víðfeðmu ríki.

Stjórnvöld setja markið á aukinn iðnað sem mun, samkvæmt sömu skýrslu, þrefalda hlut hans í vatnsnotkuninni, úr um 6% í upphafi áratugarins í 18% um miðja öldina.

Tekið er dýpra í árinni í skýrslu Alþjóðabankans, India's Water Economy: Bracing for a Turbulent Future , en þar er varað við því að Indverjar stefni að óbreyttu í alvarlegan vatnsskort innan tveggja áratuga. Árið 2020 muni eftirspurnin fara fram úr framboðinu og Indland ekki hafa fjárhagslega burði til að sjá öllum þegnum sínum fyrir nægu vatni. Því sé brýnt að stuðla að aukinni fjárfestingu í vatnsinnviðunum og við það áríðandi verkefni að hreinsa upp mengaðar ár og vatnsból.

Tvíburahnettir sjá undir jarðlögin

Niðurstöðurnar sem Geimvísindastofnun Bandaríkjanna (NASA) hefur skýrt frá eru byggðar á gögnum sem er aflað með Grace-tvíburagervihnöttunum.

Hnettirnir hafa í dag verið 2.707 daga í geimnum en þeim var skotið á loft árið 2002 til að mæla breytingar á segulsviði jarðar. Um 220 km eru á milli hnattanna sem eru í um 500 km hæð yfir jörðu.

Matt Rodell, vatnafræðingur hjá NASA, segir í viðtali á vef stofnunarinnar að mælingar á breytingum í segulsviðinu veiti vísbendingar um vatnsforðann, hvort sem um ræðir athugun á grunnvatnsstöðu, vatnsmagn í jarðvegi, yfirborðsvatn í vötnum og ám eða vatn í formi snjós og íss (vatn hefur þyngd sem aftur hefur áhrif á segulsviðið). Rodell segir meira vatn á sumum stöðum síðan mælingin hófst, minna á öðrum.