Áhugavekjandi Að nota ýmis konar hluti við stærðfræðikennslu reynist vel.
Áhugavekjandi Að nota ýmis konar hluti við stærðfræðikennslu reynist vel. — Morgunblaðið/Jakob Fannar
Til að gera stærðfræði skapandi og skemmtilega er mikilvægt að leggja fyrir nemendur verkefni sem vekja áhuga þeirra. Birna Hugrún Bjarnardóttir leggur áherslu á hlutbundna stærðfræðikennslu.

Eftir Maríu Ólafsdóttur

maria@mbl.is

Mér gekk vel í stærðfræði í grunnskóla og fannst hún skemmtileg en smátt og smátt hef ég fengið meiri og meiri áhuga á því hvernig stærðfræðinám barna fer fram. Það er mjög mismunandi eftir kennurum og skólum hvernig stærðfræði er kennd en nýtt námsefni sem hefur komið út smátt og smátt undanfarin tíu ár, Einingabækurnar, Geislabækurnar og Átta-tíu-bækurnar, hafa valdið ákveðnum straumhvörfum auk nýrrar námsskrár sem gerð var fyrir tíu árum,“ segir Birna sem starfar sem deildarstjóri yfir stærð- og náttúrufræði í Vatnsendaskóla.

Samvinna nemenda mikilvæg

Í stærðfræðikennslunni leggur Birna áherslu á samvinnu nemenda þannig að þeir vinni í hópum í hlutbundinni stærðfræði, það er að segja vinni með ákveðna hluti og tali saman um verkefnin. Nokkuð er um að getumeiri og getuminni nemendum sé raðað saman í hópa því þannig styrki þeir hver annan en Birna segir þá getuminni oft þrautseigari og tilbúnari til að glíma við verkefnin á meðan hinir gefist fyrr upp. Helsta markmiðið með stærðfræðikennslunni er að nemendur öðlist skilning á stærðfræði. Þá er lögð mikil áhersla á að nemendur beiti rökum, séu skipulagðir í vinnubrögðum og nákvæmir. Birna Hugrún hefur þróað ýmis verkefni undanfarin ár en við kennsluna notar hún bæði keypt gögn og það sem er við höndina eins og mjólkurfernur, dósir, krukkur, eggjabakka og gjaldeyri í klinki héðan og þaðan úr heiminum. Þannig reynir hún að gera kennsluna áhugaverða og segir að ef hún viti að einhver verkefni séu mikilvæg, en sumum finnist þau ekki sérlega áhugaverð, sé gott að hafa skemmtilegt spil eða púsl við höndina til að vinna í kjölfar verkefnis og hvetja börnin áfram við verkefnavinnuna.

Verkfæri framtíðarinnar

„Ég hef smátt og smátt verið að þróa kennslukerfið mitt þannig að börnin vinni saman í stöðvum og einnig legg ég áherslu á sjálfsmat nemenda og námsmat kennara. Ég hef ekki einskorðað mig við kennslustofuna heldur vinna nemendur líka verkefni úti þar sem þeir rannsaka náttúruna og manngerða hluti. Það er gaman að kenna börnum á öllum aldri stærðfræði en maður verður að vera með verkefni eftir aldri og hægt er að leggja viðameiri verkefni fyrir eldri krakkana sem þau geta jafnvel komið að aftur. Síbreytilegt samfélag kallar á að nemendur hafi góðan skilning á stærðfræði. Það er mikilvægt að stærðfræðin sé lifandi þannig að börn iðki stærðfræði, hún sé tengd umhverfi þeirra og reynsluheimi og sé eitthvað sem þau geti nýtt sér sem verkfæri í framtíðinni,“ segir Birna Hugrún.