Borgarholtsskóli Lögð er áhersla á hlýtt viðmót innan veggja skólans.
Borgarholtsskóli Lögð er áhersla á hlýtt viðmót innan veggja skólans. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
Framhaldsskólar á landinu eru fjölmargir og hefur hver og einn skapað sína sérstöðu. Einn þeirra er Borgarholtsskóli sem er staðsettur í Grafarvogi.

Framhaldsskólar á landinu eru fjölmargir og hefur hver og einn skapað sína sérstöðu. Einn þeirra er Borgarholtsskóli sem er staðsettur í Grafarvogi. Hann er framsækinn og tæknivæddur nútímaskóli með um 1500 nemendur en frá upphafi hefur skólinn haft þá stefnu að stuðla að bókmennt, handmennt og siðmennt nemenda sinna.

Færni til starfs með börnum

Námsframboð skólans er fjölbreytt en fyrir þá sem finnst skemmtilegt að starfa með börnum og vilja geta aflað sér hagnýtrar starfsmenntunar á tiltölulega stuttum tíma er nám fyrir stuðningsfulltrúa, skólaliða og leiðbeinendur í leikskóla tilvalið. Markmið námsins er að veita þekkingu og færni til starfs með börnum í námi og leik en þar er lögð áhersla á námsgreinar eins og sálfræði, siðfræði, uppeldisfræði og mikilvægi samskipta í starfi með börnum. Jafnframt er lögð áhersla á mikilvægi hreyfingar og leikja í námi og þroska barna.

Sérgreinar meginuppistaða

Námið er uppbyggt með áföngum í uppeldis-, félags-, sál-, siðfræði og skyldum greinum. Er hluti námsins almennt bóknám en meginuppistaða þess eru sérgreinar sem lúta að samskiptum og samstarfi ásamt umönnun og daglegu starfi með börnum. Námið nær einnig til leiðbeininga um heilbrigði og holla lífshætti. Nám skólaliða er alls 36 einingar, nám stuðningsfulltrúa 73 einingar og nám fyrir leiðbeinendur í leikskólum 71 eining. Innan skólans eru einnig kenndar bíliðngreinar, málm- og véltæknigreinar og félags- og tómstundanám svo fátt eitt sé nefnt.