Líf Fridu Kahlo Stefán Guðmundsson er mikill aðdáandi Fridu Kahlo og mynd af henni prýðir vegg heimilis hans.
Líf Fridu Kahlo Stefán Guðmundsson er mikill aðdáandi Fridu Kahlo og mynd af henni prýðir vegg heimilis hans. — Morgunblaðið/Heiddi
Á áhugaverðu námskeiði í Endurmenntun Háskóla Íslands verður fjallað um líf og list Fridu Kahlo en saga hennar er mjög merkileg. Í lok námskeiðsins verður farið á sýninguna Fridu Kahlo og í kjölfarið verða umræður við leikara sýningarinnar.

Eftir Svanhvíti Ljósbjörgu

svanhvit@mbl.is

Flestir hafa heyrt minnst á listakonuna Fridu Kahlo en margir myndu þó vilja læra enn meira um sögu hennar enda merkileg kona. Endurmenntun Háskóla Íslands býður upp á námskeið um Fridu Kahlo í haust og er námskeiðið haldið í samvinnu við Þjóðleikhúsið. Í lok námskeiðsins er farið á leiksýninguna Frida Kahlo í Þjóðleikhúsinu og eftir sýninguna fara fram umræður með þátttakendum námskeiðsins, kennurum og leikurum sýningarinnar. Stefán Guðmundsson leiðbeinir á námskeiðinu en hann hefur áður haldið námskeið um Fridu Kahlo. „Ég hélt sams konar námskeið fyrir tveimur árum en það var í tilefni af því að það voru 100 ár síðan Frida fæddist. Mér fannst þá tilvalið að setja saman stutt og hnitmiðað námskeið til þess að fjalla um líf hennar og list og vitanlega notaði ég myndefni til að krydda fyrirlesturinn.“

Merkileg kona

Stefán hefur lengi haft áhuga á sögu Fridu Kahlo eða allt frá því að hann bjó í Mexíkó frá 1994-1999. „Hluta af þeim tíma var ég í masternámi í menningarsögu Rómönsku Ameríku og bjó í einhvern tíma í hverfinu þar sem bláa hús Fridu Kahlo er en pabbi hennar byggði það. Þar er safn Fridu Kahlo í dag enda bjuggu hún og maður hennar, Diego Rivera, þar stóran hluta lífs síns. Fljótlega eftir að ég kom til Mexíkó varð ég mjög skotinn í Fridu Kahlo, mér fannst hún mjög merkileg persóna og ekki síst vegna þess að hún bjó í þessu karlasamfélagi sem Mexíkó er. Það er forvitnilegt að skoða hvernig svona kona kom sér áfram og svo er vitanlega hennar ótrúlega hjónaband við Diego mjög áhugavert, öll þessi ferðalög sem þau fóru saman í og þetta listalíf sem þau lifðu. Allir listamenn sem komu til Mexíkó á þessum árum, sérstaklega á 3. og 4. áratugnum, stoppuðu við hjá Fridu og Diego og þetta var því mikið athvarf. Síðan eru ýmis þekkt nöfn sem koma við sögu í lífi hennar og þar á meðal gamli byltingarleiðtoginn frá Rússlandi, Leon Trotskí. Honum var boðið hæli í Mexíkó og fékk heimboð frá forseta Mexíkó en þá hafði Diego sjálfur farið til forsetans og beðið hann að skjóta skjólshúsi yfir þennan merka mann. Síðan þekkja flestir söguna um ástarævintýrið sem Frida og Trotskí áttu saman en bæði Diego og Frida voru mjög lífsglöð og virtust bæði hafa haldið framhjá reglulega.“

Sögulegir tímar

Stefán segir að í byrjun námskeiðsins muni hann fjalla um bakgrunn Fridu og reyna að útskýra þessar þjóðfélagsaðstæður sem voru uppi þegar hún fæddist og það andrúmsloft sem hún ólst upp við í Mexíkó í upphafi 20. aldar en þá hafði mikil og merkileg bylting átt sér stað sem sneri öllu á hvolf í landinu og skapaði nýjar áherslur. „Ég tala því fyrst svolítið um þennan bakgrunn, hvaða sögulega tíma hún fæðist inn í og hvernig hún síðan tekur þátt í þessari sögu ásamt Diego. Síðan skýri ég lífshlaup hennar og einnig sérstök verk hennar sem ég vel úr. Það er náttúrlega ekki hægt að tala um öll verkin hennar en ég reyni að hlaupa í gegnum það sem hún gerði og málaði á lífsleiðinni. Þannig útskýri ég hvað stendur á bak við hvaða mynd, á hvaða tímabili ævi hennar hún er máluð, hvað er að gerast þá og reyni að tengja þetta allt saman.“

Skrautlegir kjólar Fridu

Námskeiðið stendur yfir í tvö kvöld auk þess sem farið er á leiksýninguna þriðja kvöldið. „Seinna kvöld námskeiðsins er aðeins lengra því við erum svo heppin að Brynhildur Guðjónsdóttir og Atli Rafn Sigurðarson ætla að kíkja í heimsókn til þess að kynna fyrir fólki sína sýn á Fridu, því þau setja verkið upp. Eins ætla þau að segja frá ferðalagi sínu til Mexíkó síðastliðið haust og ef við erum heppin kemur Brynhildur jafnvel með nokkra kjóla sem eru í sama stíl og Frida notaði gjarnan og voru sérstaklega saumaðir í Mexíkó.“