Óli Stefán Flóventsson
Óli Stefán Flóventsson
MÓTENEFND KSÍ mun í dag eða í síðasta lagi á morgun ákveða hvort hún verður við beiðni Grindvíkinga um að fá leik liðsins gegn ÍBV sem fram á að fara á sunnudagskvöldið frestað um óákveðinn tíma.

MÓTENEFND KSÍ mun í dag eða í síðasta lagi á morgun ákveða hvort hún verður við beiðni Grindvíkinga um að fá leik liðsins gegn ÍBV sem fram á að fara á sunnudagskvöldið frestað um óákveðinn tíma. Skæður inflúensufaraldur hefur leikið leikmenn liðsins grátt og í gær voru 10 leikmenn komnir með inflúensueinkenni. Fljótlega beindist grunur manna að því að um svokallaða svínaflensu gæti verið að ræða og í gær fékkst það staðfest af lækni að Óli Stefán Flóventsson er með svínaflensu en niðurstaðna úr fleiri sýnum sem tekin voru af leikmönnum er að vænta í dag. ,,Ég hef nú lent í ýmsu sem þjálfari og leikmaður en þetta er alveg ný reynsla. Loksins þegar liðið var að komast á skrið þá gerist þetta,“ sagði Lúkas Kostic, þjálfari Grindvíkinga, í samtali við Morgunblaðið í gær. Í bréfi sem Þorsteinn Gunnarsson, formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur, sendi til mótanefndar KSÍ segir meðal annars: ,,Óski KSÍ eftir læknisvottorðum er það sjálfsagt mál en það gæti tekið einhvern tíma að safna þeim saman því flestir leikmennirnir eru rúmliggjandi. Rétt er að taka fram að okkur er nauðugur einn kostur að biðja um þessa frestun. Hún er alls ekki í okkar þágu því við missum einn af okkar lykilmönnum, Boga Rafn Einarsson, í nám til Bandaríkjanna eftir helgi. Ástandið er einfaldlega þannig að það er ekki forsvaranlegt að spila leikinn á sunnudaginn við þessar aðstæður.“ gummih@mbl.is