Tækniskólinn, skóli atvinnulífsins, varð til við sameiningu Iðnskólans í Reykjavík og Fjöltækniskólans fyrir einu ári. Réttindanám er sérgrein skólans, en undir hann heyra margir sérskólar.

Tækniskólinn, skóli atvinnulífsins, varð til við sameiningu Iðnskólans í Reykjavík og Fjöltækniskólans fyrir einu ári. Réttindanám er sérgrein skólans, en undir hann heyra margir sérskólar.

Samfélagsleg áhrif

„Aðsókn hefur verið mjög góð hjá okkur fyrir komandi skólaár en við finnum að allt sem gerist í þjóðfélaginu hefur bein áhrif á aðsóknina. Þannig sjáum við að eftir því sem horfur á atvinnumarkaði eru verri dregur úr aðsókn í ákveðnar greinar. Á sama tíma mætum við breyttum aðstæðum í þjóðfélaginu með nýju námi sem við vonumst til að njóti vinsælda. Tækniskólinn hefur sterkt tengsl inn í atvinnulífið og við hvern skóla er starfandi fagráð með aðilum úr atvinnulífinu sem hefur reynst mjög farsælt,“ segir Aðalheiður Sigursveinsdóttir, samskiptastjóri Tækniskólans.

Aukin réttindi

Hjá Tækniskólanum er í boði meistararéttindanám þar sem iðnaðarmenn geta náð sér í aukin réttindi og sjálfstæði á markaði. Um er að ræða tveggja ára nám og segir Aðalheiður vera spennandi að sjá hvernig námið muni þróast en líklegt sé að fólk noti tækifærið nú þegar hægist um til að bæta við sig réttindum. Þá hefur aðsókn í Skipstjórnarskólann ætíð verið mikil en þar er meðal annars í boði námskeið fyrir þá sem vilja fá réttindi á minnstu stærð báta. Aðalheiður segir áhugavert að sjá hvort aukin aðsókn verði á það námskeið út frá umræðu og breytingum um löggjöf er varðar fiskveiðar. Þá er nýjung í réttindanámi að fólk getur lokið einkaflugmannsprófi samhliða Tækniskólanum og lokið þannig stúdentsprófi um leið.

maria@mbl.is