Karen Elísabet Halldórsdóttir
Karen Elísabet Halldórsdóttir
Eftir Karen Elísabet Halldórsdóttur: "Svona er farið með litlar þjóðir. Í krafti stærðar og valda munu þær stóru kúga þær litlu til að borga meira en það sem þeim ber."

NÚ ER það morgunljóst sem Steingrímur og Jóhanna hafa neitað allan tímann, það er beinlínusamband á milli nauðsamningsins Icesave og þeirrar lánveitingar sem við teljum okkur þurfa frá Norðurlandaþjóðum og mikið gátu þau neitað því augljósa lengi. Við fáum ekki lán frá ESB þjóðum fyrr en við kvittum fyrir ríkisábyrgð á skuldum óreiðumanna. Við íslenskir skattborgarar sem fórum ekki í neina útrás skulum greiða fyrir leikföng ríka og fræga fólksins. Fólks sem talið var viðskiptasnillingar en var bara að leika sér með fjármuni sem það átti ekki.

Svona er farið með litlar þjóðir. Í krafti stærðar og valda munu þær stóru kúga þær litlu til að borga meira en það sem þeim ber. Við getum lítið annað en samþykkt og þakkað okkar sæla fyrir að fá að „taka þátt í samstarfi þjóðanna“ líkt og Jóhanna vísar svo oft til. Þetta svokallaða samstarf getur varla verið happadrjúgt fyrir okkur smáþjóðina ef þetta er viðtekin venja innan ESB. Það væri löngu búið að gefa endanlegan skít okkur ef ekki væri fyrir þá litlu staðreynd að við höfum hér úr miklum auðlindum að moða. Hér er nægt af fersku vatni og lofti, orkumöguleikarnir eru endalausir, frjó hugmyndaauðgi landans er takmarkalaus og lega eyjunnar skiptir miklu máli

Ég er stolt af Evu Joly, þetta er kona sem þorir og á skilið að fá fálkaorðuna! Með réttu áfellist hún umheiminn gagnvart landi sem í fávísi og fégræðgi nokkurra manna braut á innistæðueigendum. Hún bendir á að við getum ekki greitt þetta án þess að verða dæmd til fátæktar næstu árin. Ekki á þessum kjörum og ekki á þessum tíma. Skammarleg framkoma ESB og AGS varð henni til að taka upp hanskann fyrir sakleysingja þessa lands. Mikið hefði nú verið gott að þetta hefði verið gert fyrr og þá af íslenskum ráðherrum.

Þrátt fyrir að elska land mitt og þjóð hef ég stolist til að hugsa til þess að flytja héðan á brott. Ástæðan er börnin mín. Ég þarf að íhuga hvort að ég geti hugsað mér að lifa sem útlendingur í öðru landi og sinna störfum þar sem innfæddir vilja ekki starfa við gegn því að ég fái góða menntun fyrir ormana mína. Hér er rekið ágætis skólakerfi sem þó einhverra hluta vegna hefur aldrei náð að skora hátt í PISA könnunum. Það kerfi þarf nú að fara að skera enn frekar niður með að öllum líkindum hrikalegum afleiðingum fyrir menntun barna okkar. Ég get bara vonað að kennararnir vilji vera hérna áfram. En ég vil ekki fara héðan. Við búum hér saman rúmlega 300 þúsund sérviskulegar hræður í öruggu umhverfi. Hér eru ekki borgarastyrjaldir, né ofsóknir gegn minnihlutahópum, fjölskyldur eru ekki bornar út til að rýma fyrir þóknanlegum þjóðfélagsþegnum, konum og börnum er ekki nauðgað þegar þau sækja sér vatn og lengi áfram mætti telja.

Þó svo að aðstæður okkar séu ekki nálægt því að vera jafn ömurlegar og finna má um heim allan, þá eigum við samt ekki að láta óréttlæti yfir okkur ganga. Dætur mínar eru einfaldlega ekki ábyrgar fyrir Icesave en samt vilja Steingrímur og Jóhanna ólm láta þær greiða fyrir það án allra fyrirvara. Þau réttlæta það með því að kenna ný-frjálshyggjunni um og að við þurfum að vera þæg svo að við komumst í ESB. Það er gamalt uppeldisráð að kenna ekki öðrum um þær ákvarðanir sem maður þarf að taka. Steingrímur getur ekki falið þennan vanhugsaða samning og afleiðingar hans á bak við ásakanir hans um þá sem ábyrgir eru fyrir hruninu. Icesave verður gerður „á hans vakt“.

Það eru til peningar í heiminum, það er hins vegar að minnka í fjárhirslum Breta og ESB-þjóða. Þess vegna þurfa þeir á auðlindum okkar að halda sem þeir munu hirða um leið og við getum ekki greitt fyrsta gjalddaga, enda er brunnurinn að verða þurr hjá þeim. Hvers vegna í ósköpunum hefur ekki verið athugað með lán frá öðrum löndum en þeim sem búið er að biðla til? Hvað með Kína sem ber efnahag Bandaríkjanna á herðum sér og fer létt með.

Vonandi semjum við ekki af okkur þegar kemur að því að klára Icesave eða ESB-aðild, en það er ljóst að ESB-þjóðirnar ætla sér góða samningsstöðu þegar kemur að því að semja. Við verðum á hnjánum enda ekki nokkur leið að sjá hvernig við ætlum að greiða af skuldum okkar.

Ég vil leggja eftirfarandi til: að nú þegar þýðingarmestu mál Íslandssögunar eru til afgreiðslu hjá Alþingi okkar Íslendinga aftengjum við hnappinn sem segir: sit hjá! Það á ekki að líðast neinum alþingismanni að taka ekki afstöðu þegar kjósa á um Icesave eða ESB-aðild. Allt kosningavæl og annar hjáróma málflutningur á ekki að líðast fólki sem hefur boðið sig fram til þess að vera fulltrúar þjóðarinnar á þingi. Ég geri ráð fyrir að það hafi viljað komast á Alþingi til þess að hafa áhrif á þróun íslensks samfélags til hins betra....eða hvað? Það er krafa kjósenda að fulltrúar þeirra komi sinni afstöðu skýrt áleiðis.

Ég vona að alþingismenn þessa lands þori að krefjast þess að samið verði á ný í ljósi nýrra upplýsinga um framtíðarhorfur barna okkar sem alast eiga upp á eyjunni okkar.

Höfundur er MS í mannauðsstjórnun, BA í sálfræði.

Höf.: Karen Elísabet Halldórsdóttur