— Morgunblaðið/Ómar
LÖGREGLUMENN og slökkviliðsmenn hafa fellt kjarasamninga þá sem gerðir voru í sumar. Í tilfelli lögreglumanna var um að ræða kjarasamning sem gerður var í sumar við ríkið. Hann var felldur með miklum mun.

LÖGREGLUMENN og slökkviliðsmenn hafa fellt kjarasamninga þá sem gerðir voru í sumar.

Í tilfelli lögreglumanna var um að ræða kjarasamning sem gerður var í sumar við ríkið. Hann var felldur með miklum mun. Þannig höfnuðu 90,5% þeirra sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni samningnum, 7,5% vildu samþykkja hann en 1,9% skiluðu auðu. Alls voru 747 á kjörskrá og kjörsókn 55,3%.

Kjarasamningar aðildarfélaga BSRB við ríkið voru framlengdir í byrjun júlí til 30. nóvember 2010, með sérstöku framlengingarsamkomulagi, sem gert var við samninganefnd ríkisins. Var samkomulagið gert í kjölfar svonefnds stöðugleikasáttamála, sem ríkisvaldið og aðilar vinnumarkaðarins gerðu með sér í júnílok.

Óljóst er hvað tekur nú við, en þess ber að geta að samkvæmt lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna nær heimild til verkfalls ekki til þeirra sem starfa við nauðsynlegustu öryggisgæslu.

Niðurstaðan kom á óvart

Í tilfelli slökkviliðsmanna var um að ræða kjarasamning sem gerður var við launanefnd sveitarfélaga í júlí sl. Hann var einnig felldur með miklum mun. 85% þeirra sem tóku þátt höfnuðu samningnum, 13% sögðu já en auðir og ógildir seðlar voru 2%. Á kjörskrá voru 252 og var kjörsókn 71%. Samkvæmt upplýsingum frá Sverri Birni Björnssyni, formanni Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, kom niðurstaðan mönnum á óvart. Sagði hann viðbúið að sest yrði aftur að samningaborðinu og líklegast að slíkir fundir færu fram hjá ríkissáttasemjara. Ólíkt lögreglumönnum hafa slökkviliðsmenn verkfallsrétt. silja@mbl.is