Emil Hallfreðsson
Emil Hallfreðsson
Eftir Guðmund Hilmarsson gummih@mbl.is LANDSLIÐSMAÐURINN Emil Hallfreðsson heldur í dag til Barnsley og að öllu óbreyttu mun hann skrifa undir samning við enska 1. deildarliðið.

Eftir Guðmund Hilmarsson

gummih@mbl.is

LANDSLIÐSMAÐURINN Emil Hallfreðsson heldur í dag til Barnsley og að öllu óbreyttu mun hann skrifa undir samning við enska 1. deildarliðið.

Emil kom til London í gær og hann heldur með umboðsmanni sínum til Barnsley í dag þar sem hann gengst undir læknisskoðun og í framhaldinu mun hann svo rita nafn sitt undir samning. Um lánssamning er að ræða en Emil, sem stóð sig vel með íslenska landsliðinu gegn Slóvökum í fyrrakvöld, er samningsbundinn ítalska liðinu Reggina sem féll úr A-deildinni í vor. Ákvæði verða í samningnum að Barnsley geti gert samning til frambúðar við Emil standi hann undir væntingum með liðinu.

,,Ég geri ekki ráð fyrir öðru en að þetta klárist á morgun (í dag). Það eru allar líkur á því. Ég veit ekki hvort ég spila með Barnsley á laugardaginn en auðvitað yrði gaman ef það gengi upp. Samningurinn á milli mín og Barnsley er nánast klár svo í raun er það bara læknisskoðunin sem er eftir,“ sagði Emil í samtali við Morgunblaðið í gær en Barnsley tekur á móti Aroni Einari Gunnarssyni og félögum hans í Coventry í fyrsta heimaleiknum í 1. deildinni á þessu tímabili á morgun.

Simon Davey, knattspyrnustjóri Barnsley, sagði í viðtölum við enska fjölmiðla í gær að hann gerði sér góðar vonir um að ganga frá samningi við Emil í dag en hann hefur lagt hart að forráðamönnum félagsins að fá Emil til liðs við Barnsley.

,,Við eigum enn eftir að fá leikheimild frá Knattspyrnusambandi Íslands svo ég reikna ekki með því að hann nái leiknum á móti Coventry,“ sagði Davey.