Stýrir skútunni Ólafur Ólafsson er stjórnarformaður Alfesca.
Stýrir skútunni Ólafur Ólafsson er stjórnarformaður Alfesca. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Þorbjörn Þórðarson thorbjorn@mbl.is MIKIL óánægja er meðal Sameinaða lífeyrissjóðsins, Gildi lífeyrissjóðs, Stafa lífeyrissjóðs og Rekstrarfélags Kaupþings (RKB) með yfirtökutilboð franska félagsins Lur Berri í Alfesca, en saman fara þessir fjórir...

Eftir Þorbjörn Þórðarson

thorbjorn@mbl.is

MIKIL óánægja er meðal Sameinaða lífeyrissjóðsins, Gildi lífeyrissjóðs, Stafa lífeyrissjóðs og Rekstrarfélags Kaupþings (RKB) með yfirtökutilboð franska félagsins Lur Berri í Alfesca, en saman fara þessir fjórir aðilar með 11,57% hlutafjár í matvælafyrirtækið Alfesca.

Tekist á um yfirtökuverðið

Yfirtökutilboðið gerir ráð fyrir að Alfesca sé 26,5 milljarða króna virði. Þess má geta að niðurstaða sjálfstæðs verðmats IFS-greiningar, sem hvorki var unnið að beiðni kaupanda né seljanda í félaginu, gerir ráð fyrir að heildarvirði Alfesca sé 68 milljarðar króna og virði hlutafjárins 47 milljarðar sem er 8 krónur á hlut. Það er tæplega tvöfalt hærra en yfirtökutilboð Lur Berri sem er 4,5 krónur á hlut. „Þetta er spurning um forsendur sem menn gefa sér,“ segir Árni Tómasson, stjórnarmaður í Alfesca, um þennan mun á verðmötum.

Sagt var frá væntanlegu yfirtökutilboði Lur Berri Iceland, dótturfélags Lur Berri Holding, í maí. Þá hafði fyrirtækið keypt tæplega 3% hlut í Alfesca. Stærstu hluthafar Alfesca auk Lur Berri, þ.e. Kjalar Invest, Alta Food Holding, Kaupthing Singer & Friedlander og tilteknir stjórnendur Alfesca höfðu þá gert með sér samning um stjórn og rekstur félagsins.

Á hluthafafundi Alfesca á miðvikudag var meðal annars tekist á um yfirtökuverðið. Lífeyrissjóðirnir og RKB telja að það verðmat sem Saga Capital vann að beiðni stjórnar Alfesca sé alltof lágt og endurspegli ekki raunverulegt verðmæti félagsins, en Saga telur að yfirtökutilboðið sé sanngjarnt. Einn hluthafi sem rætt var við nefndi verðmatið „grín verðmat“. Þeir gera einnig alvarlegar athugasemdir við fundargerð frá hluthafafundinum, þar séu hvergi birtar athugasemdir þeirra. Lífeyrissjóðirnir eru einnig óánægðir með hugmyndir um afskráningu úr Kauphöll, en greidd voru atkvæði um það á fundinum og voru 86% hluthafa hlynnt því.

Forstjóri Alfesca, Xavier Govare, sagði á hluthafafundinum að félagið þyrfti að fara frá Íslandi. Árni Tómasson segir að það sé mikill veikleiki fyrir Alfesca að vera íslenskt fyrirtæki starfandi erlendis. „Það viðurkenndu allir þá staðreynd á fundinum,“ segir hann. Árni segir að vel sé inni í myndinni að þeir sem séu mótfallnir yfirtökunni haldi eignarhlut sínum og fái áheyrnarfulltrúa í stjórn Alfesca.

Í hnotskurn
» Alfesca sérhæfir sig í tilbúnum matvælum, aðallega sjávarafurðum eins og reyktum laxi, skelfiski og rækjum.
» Fyrirtækið rekur níu sjálfstæð fyrirtæki í Evrópu. Stjórnarformaður og stærsti hluthafi er Ólafur Ólafsson, oft kenndur við Samskip.