Andrúmsloftið á Alþingi var þrungið spennu í gærkvöldi og mátti heyra þingmenn rífast á göngum þinghússins. Fundað var um Icesave-málið í fjárlaganefnd og þegar Morgunblaðið fór í prentun stóðu fundahöld enn yfir.

Andrúmsloftið á Alþingi var þrungið spennu í gærkvöldi og mátti heyra þingmenn rífast á göngum þinghússins. Fundað var um Icesave-málið í fjárlaganefnd og þegar Morgunblaðið fór í prentun stóðu fundahöld enn yfir.

Eins og fram kemur í Morgunblaðinu í dag þrýsta forustumenn stjórnarflokkanna mjög á um að málið verði afgreitt með þeim fyrirvörum, sem fram koma í breytingartillögum við frumvarp til laga um heimild til ríkisábyrgðar vegna láns tryggingasjóða innistæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu vegna Icesave.

Fyrirvararnir eins og þeir komu til nefndarinnar eftir að nefnd lögmanna undir forustu Eríks Tómassonar hafði farið yfir þá birtust í Morgunblaðinu í dag. Þar er meðal annars svo hljóðandi ákvæði, sem sýnir hvað mikið er í húfi: „Að staða Íslands sem fullvalda ríkis komi í veg fyrir að gerð sé aðför í eignum þess sem það þarf nauðsynlega á að halda til að starfrækja hlutverk sitt sem fullvalda ríki með viðunandi hætti. Sama á við um eignir íslenska ríkisins erlendis, þar á meðal eignir Seðlabanka Íslands, sem njóta verndar samkvæmt almennum reglum þjóðaréttar.“

Mestur styr stendur um ákvæði breytingartillagnanna um að greiðslubyrði ríkissjóðs „verði ekki umfram 3,5% af vergri landsframleiðslu hvers árs“.

Með þessum breytingum er verið að reyna að bregðast við þeirri gagnrýni, sem komið hefur fram á samninginn um Icesave. Því var haldið fram í gærkvöldi að fyrirvararnir rúmuðust innan ramma samningsins. Sé svo er erfitt að sjá að þeir breyti miklu, enda sagði stjórnarandstaðan í gærkvöldi að þeir þýddu upptöku samningsins.

Ljóst var í gærkvöldi að síður en svo ríkti sátt um málið. Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra segir í Morgunblaðinu í dag að vilji sé „til að byggja á breiðri samstöðu eins og krafa er um í þjóðfélaginu“. Hlusta ber á þessi orð. Það yrði ekki farsælt ef Icesave-málið yrði keyrt í gegn með knöppum meirihluta. Þjóðin þarf á því að halda að samstaða þvert á pólitískar línur náist um þessi mál. Íslensk stjórnmál þurfa einnig á því að halda.