Vefur Námsgagnastofnunar Á vefnum má finna mjög gott ítarefni með almennu námsefni barna til heimanáms og tengja þannig nám og skemmtun.
Vefur Námsgagnastofnunar Á vefnum má finna mjög gott ítarefni með almennu námsefni barna til heimanáms og tengja þannig nám og skemmtun.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á vef Námsgagnastofnunar, www.nams.is, má finna hátt í 400 rafræna titla, en vefurinn er opinn öllum án endurgjalds. Það er mjög gott að nota efni vefjarins sem ítarefni með almennu námsefni barna til heimanáms og tengja þannig saman nám og skemmtun.

Á vef Námsgagnastofnunar, www.nams.is, má finna hátt í 400 rafræna titla, en vefurinn er opinn öllum án endurgjalds. Það er mjög gott að nota efni vefjarins sem ítarefni með almennu námsefni barna til heimanáms og tengja þannig saman nám og skemmtun. Gagnvirkir vefir Námsgagnastofnunar eru nærri 100, en þar má til dæmis nefna vefi eins og Stafaleikir Búa, Stafaleikir Bínu fyrir börn sem eru að læra að lesa og Samlagning og Frádráttur fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í stærðfræði. Á veftorginu Íslenska á yngsta stigi er búið er að safna saman verkefnum og fleiru nytsamlegu sem tengist kennslu í íslensku í 1.-4. bekk. Á safnvefjum um stærðfræði er tekið saman allt viðbótarefni sem tilheyrir stærðfræði á hverju stigi ásamt lausnum á ýmsum stærðfræðibókum. Á síðunni eru líka fjölbreyttir vefir fyrir þá sem eru lengra komnir í námi og þar má til dæmis nefna vefi sem þjálfa stafsetningu, málfræði, algebru, prósentur, ensku, dönsku og margt fleira.

Hljóðbækur til niðurhals

Ellen Klara Eyjólfsdóttir, kynningarstjóri Námsgagnastofnunar, talar um að Fuglavefurinn sé vinsælasti vefur stofnunarinnar, en Húsdýravefurinn, Kynfræðsluvefurinn og Plöntuvefurinn eru líka vinsælir. Þessir vefir eru aðeins lítið brot af því sem finna má inni á Krakkasíðum og Unglingasíðum inni á vefsíðu Námsgagnastofnunar.

Á vefnum eru enn fremur tæplega 270 titlar á pdf-formi til útprentunar. Þar eru ýmis verkefni með bókum gefnum út af stofnuninni ásamt kennsluleiðbeiningum og lausnum á ýmsum stærðfræðibókum.

Það er nýtt hjá Námsgagnastofnun að bjóða allar útgefnar hljóðbækur á vef til niðurhlaðs en ekki á geisladiskum en stafrænar hljóðbækur eru rúmlega 80 talsins. Hljóðbók er til með flestum grunnbókum sem stofnunin gefur út og þeim geta allir hlaðið niður af síðunni. Eins geta skólar hlaðið niður stafrænum fræðslumyndum, sem eru 140 talsins, á IP-tölu viðkomandi skóla.

Notendur um allan heim

Vefsíða Námsgagnastofnunar er greinilega vinsæl og notendur hennar dreifast víða um heim, að sögn Ellenar. „Árið 2008 og það sem af er 2009 hafa komið inn notendur frá alls 34 löndum. Þar af eru notendur á Norðurlöndunum og í Bandaríkjunum fjölmennastir, en þeir finnast einnig í Suður-Ameríku, víðs vegar um Evrópu, í Austurlöndum nær og fjær, ásamt Eyjaálfu,“ segir Ellen og hvetur alla sem hafa áhuga á því námsefni sem er í boði fyrir grunnskóla að skrá sig á póstlista Námsgagnastofnunar til að fá sendar tilkynningar um allt nýtt efni sem kemur út.