Sköpun Í verkefninu fengu börnin sína eigin lóð sem þau gátu byggt húsið sitt á og skreytt eftir smekk.
Sköpun Í verkefninu fengu börnin sína eigin lóð sem þau gátu byggt húsið sitt á og skreytt eftir smekk.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Myndlistarskólinn í Reykjavík býður upp á námskeið í arkitektúr fyrir 3-5 ára og Hildigunnur Birgisdóttir segir gaman að sjá hvað börn á þessum aldri upplifi umhverfi sitt á frumlegan hátt.

Eftir Svanhvíti Ljósbjörgu

svanhvit@mbl.is

Þegar hugsað er um arkitektúr er ekki oft sem 3-5 ára börn koma upp í hugann, en í Myndlistarskólanum í Reykjavík verður meðal annars boðið upp á námskeið í arkitektúr fyrir 3-5 ára börn. Hildigunnur Birgisdóttir hefur kennt börnum á þessum aldri myndlist. „Á myndlistarnámskeiðunum höfum við oft gert verkefni í arkitektúr. Núna eru tveir arkitektar í vinnu við skólann og við ætlum að nýta okkur þann mannauð.“

Hrein upplifun á rými

Hildigunnur segir að börnin séu með mjög ferska aðkomu að hlutunum og því sé gaman að kenna þeim eitthvað nýtt. „Rétt eins og hægt er að kenna 3-5 ára börnum myndlist, tónlist og starfið sem fram fer á leikskóla, er hægt að kenna þeim arkitektúr. Þau eru líka með svo sterka upplifun að ég lærði heilmikið á meðan ég kenndi þessum aldurshópi. Þau hafa svo hreina upplifun á rými auk þess sem þau skynja umhverfi sitt svolítið sterkt og nánast á frumlegan hátt. Við sem erum eldri erum orðin sjóaðri og það er því eitthvað ferskt og magnað við að kenna þessum aldri, hvort sem er í myndlist eða arkitektúr. Þau koma manni alltaf á óvart og það er það sem er skemmtilegast, þessi ferska aðkoma hjá þeim.“

Hús byggt út frá persónuleika

Síðasta vetur fengu börnin hjá Hildigunni það verkefni að byggja hús úr sykurmolum sem Hildigunnur segir að hafi komi sérstaklega skemmtilega út. „Sykurmolar eru mjög viðráðanlegur efniviður fyrir þennan aldur því þau eiga auðvelt með að nota hann án þess að þurfa að velta honum mikið fyrir sér. Áður en við byrjuðum á byggingunum skoðuðum við byggingarsögu, fengum þykkar og stórar bækur og töluðum um það sem við sáum. Við skoðuðum sérstaklega múrsteinahús, allt frá gömlum píramídum í Egyptalandi til að sjá hvernig múrsteinar hafa verið notaðir, hvernig þeim er raðað upp og svo framvegis. Svo fengu þau sína lóð og byrjuðu að byggja með lími og sykurmolum. Það eru ótrúlegustu byggingar og ofboðslega ólíkar byggingar sem urðu til í þessu verkefni sem segir til um hversu vel verkefninu tókst að laða fram þeirra persónuleika,“ segir Hildigunnur og bætir því við að börnin hafi alls ekki látið stóru bækurnar fæla sig. „Stórar og þykkar bækur eru alltaf mjög heillandi og Myndlistarskólinn er með frábæra aðstöðu, yndislegt bókasafn sem er svakalega spennandi, með plöntum og dýrum á hillunum. Bækurnar eru uppfullar af myndum sem börnin hafa gaman af, með því skemmtilegasta sem þau gera er að skoða myndir og tjá sig um þær. Allir fá sína bók til að skoða og fá innblástur. Þetta virkar alveg eins og hjá manni sjálfum, þau fá innblástur og allt í einu kviknar einhver hugmynd.“

Hvernig vilja dýrin búa?

Í Myndlistarskólanum fá börn að kynnast, upplifa og prufa sig áfram með ýmsan efnivið sem Hildigunnur segir að víkki sjóndeildarhring þeirra. „Við vorum líka með vikulöng námskeið í sumar þar sem við skoðuðum byggingarlist og þá ákváðum við að vinna með hús sem þau komust inn í. Þau fengu rosalega stór pappírsspjöld og byggðu sín eigin hús. Þá fóru þau jafnvel inn í einhvern hugarheim, til dæmis hugarheim dýrsins og ímynduðu sér hvernig hús þau vildu ef þau væru moldvörpur. Þannig mynduðust ýmiss konar dýr og þau þurftu að þjóna þeim á ýmsan hátt. Þannig leiddi ég þau í gegnum alls kyns grundvallaratriði í gegnum leik, eins og hvernig maður vill búa, hverju maður þarf á að halda og hvernig maður vill fá ljós inn í húsið sitt. Útkoman var mjög skemmtileg að venju.“