„ÍSLENDINGAR eru reiðir en munu færa fórnir,“ er fyrirsögn greinar eftir Jóhönnu Sigurðardóttur sem birt var á vef Financial Times laust fyrir klukkan 19 í gær.

„ÍSLENDINGAR eru reiðir en munu færa fórnir,“ er fyrirsögn greinar eftir Jóhönnu Sigurðardóttur sem birt var á vef Financial Times laust fyrir klukkan 19 í gær.

Í greininni neitar Jóhanna ásökunum um að Íslendingar hneigist til að halda að allt sem miður hefur farið megi rekja til samsæris Breta og Hollendinga. „Íslendingar, sem telja sig ekki bera ábyrgð á bankakreppunni í heiminum, eru tilbúnir að færa fórnir til að tryggja eðlileg tengsl og viðskipti við umheiminn. En þeir eru reiðir yfir því að þurfa að bera byrðarnar vegna Icesave-reikninga Landsbanka.“

Í greininni gagnrýnir Jóhanna bresk stjórnvöld fyrir að beita hryðjuverkalögum gegn Íslandi eftir bankahrunið.

Hún segir sterk rök hafa verið færð fyrir því að Ísland hafi orðið fórnarlamb galla á tilskipun ESB um innlánstryggingar.

Jóhanna segir að umfjöllun Financial Times um meintan þrýsting Hollendinga og Breta á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hafi torveldað ríkisstjórninni að sannfæra Alþingi um að samkomulag um Icesave væri óhjákvæmilegt. „Vonandi gerir fólk í stórum löndum á borð við Bretland og Holland sér grein fyrir þeim varanlegu afleiðingum sem gerðir ríkisstjórna þeirra geta haft fyrir lítið land eins og okkar þegar miklir erfiðleikar steðja að því.“