Farsímar Eins og sjá má hafa farsímar tekið nokkrum breytingum í gegnum tíðina. Elstu símarnir eru í efri röð, til vinstri, og hinir yngri að neðan.
Farsímar Eins og sjá má hafa farsímar tekið nokkrum breytingum í gegnum tíðina. Elstu símarnir eru í efri röð, til vinstri, og hinir yngri að neðan. — Morgunblaðið/Jakob Fannar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Sigrúnu Ernu Geirsdóttur sigrunerna@mbl.is GSM-farsíminn á Íslandi fagnar 15 ára afmæli á sunnudaginn. Í upphafi var Síminn með ellefu sendistaði en nú eru þeir orðnir rúmlega átta hundruð, bæði frá Símanum og Vodafone.

Eftir Sigrúnu Ernu Geirsdóttur

sigrunerna@mbl.is

GSM-farsíminn á Íslandi fagnar 15 ára afmæli á sunnudaginn. Í upphafi var Síminn með ellefu sendistaði en nú eru þeir orðnir rúmlega átta hundruð, bæði frá Símanum og Vodafone. Fyrsti farsíminn kostaði að núvirði 320 þúsund. Fyrsta símtalið átti sér stað þegar Ólafur Tómasson, þáverandi póst- og símamálastjóri, hringdi í Halldór Blöndal, þáverandi samgönguráðherra, en hann var þá staddur á Akureyri.

Frá Reykjavík til Keflavíkur

Þegar Póstur og sími fóru af stað með GSM-farsímaþjónustu sína árið 1994 voru ellefu sendar á landinu: í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Keflavík, Hafnahól sem er milli Keflavíkur og Hafnarfjarðar og á Akureyri. Var þá næstum samfellt samband á milli Keflavíkur og Reykjavíkur, ef ekin var beinasta leið. Til samanburðar má nefna að Síminn rekur í dag um 430 sendistaði. Þá er Vodafone með rúmlega fjögur hundruð senda. Fyrsti farsíminn var nokkuð dýr. Vegna opnunarinnar keypti Póstur og sími heilsíðuauglýsingu í Morgunblaðinu og bauð síma til kaups. Var þetta Ericsson GH 337-sími og kostaði litlar 120 þúsund sem reiknast til að vera um 320 þúsund í dag. Dýrasti sími Símans í dag kostar 134.900 og er hann talsvert tæknilegri. Einungis var hægt að hringja úr símunum fyrstu árin og kom sms-ið ekki til sögunnar fyrr en 1997. Landinn kunni þó strax vel að meta gemsann. Í árslok 1994 voru GSM-númerin orðin 2.120, ári síðar 9.375 og nú nema þau 370.000

Margir deildu sama síma

„Dæmi sem sýnir hversu mikið hlutirnir hafa breyst er að í upphafi gerðu menn ráð fyrir að fólk sameinaðist um símtæki en hver og einn hefði eigið SIM-kort. Þegar maður fór úr húsi var kortinu smellt í og svo fjarlægt þegar komið var til baka. Hjá Símanum voru sumar deildir til dæmis með einn eða tvo síma fyrir tíu til tólf starfsmenn sem höfðu aðgang eftir þörfum,“ segir Margrét Stefánsdóttir, forstöðumaður samskiptasviðs Símans. Þegar menn sátu við skrifborðin áttu þeir að nota borðsímann, farsíminn var bara notaður ef menn voru á ferðinni. Þá var ætlast til þess að þeir sem höfðu sinn eigin síma slökktu á honum þegar þeir komu heim úr vinnunni eða þegar gengið var til náða. „Svo má geta þess að þegar Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Símans, kom til starfa fyrir fjórtán árum fékk hann ekki farsíma fyrr en ári eftir að hann byrjaði og var það bæði gamall og notaður sími,“ segir Margrét.

Ekki hægt að hlera hann

Áhugavert er að skoða fréttir fjölmiðla af viðburðinum. Í frétt í Morgunblaðinu hinn 11. ágúst meðal annars að nýja kerfið sé stafrænt og hafi til dæmis þann kost að ekki sé hægt að hlera símtöl í því. Og: „Vonast er til að nýja kerfið muni létta álagi af NMT-kerfinu, þ.e. að einhverjir notendur þess færi sig yfir í GSM.“ Í DV mátti sjá fyrirsagnir eins og: Laufléttur vasasími og ekki hægt að hlera, og Korthafinn borgar fyrir að svara! Án efa er erfitt fyrir marga að ímynda sér lífið án gemsa í dag.
Í hnotskurn
» Ódýrara var að hringja um helgar frá kl. 18-8 og á virkum dögum kl. 22-8. Hægt var að hringja á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri.
» Biðtími rafhlöðu var 25 klst. og taltími 110 mínútur. Algengt er nú að biðtími sé allt að 400 klst og taltími 10 klst.
>

Ómar við hlið Gorbachevs hjá Nokia

Ómar Ragnarsson var einn þeirra sem fengu sér síma fyrsta árið. „Ég sá um leið að þetta var lykillinn að nýju umhverfi, tæki sem allir yrðu með. Ég skellti mér því á síma nánast um leið,“ segir Ómar. „Þetta var stórkostleg upplifun og bylting fyrir fréttamann. Ég myndi segja að farsíminn og flugvélin væru mikilvægustu tækin sem ég hef notað.“

Ómar segist hafa heyrt af því fyrir nokkrum árum að hjá Nokia í Finnlandi hafi hangið uppi tvær myndir sem sýna áttu mikilvægi farsíma. Eina af Gorbachev og aðra af honum sjálfum, á toppi Esjunnar, með flugvélina í bakgrunni og síma í hendinni.