Ung að dansa Á dansnámskeiði fyrir 2-3 ára gömul börn læra þau nokkra einfalda dansa.
Ung að dansa Á dansnámskeiði fyrir 2-3 ára gömul börn læra þau nokkra einfalda dansa.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á dansnámskeiði hjá Dansskóla Ragnars Sverrissonar dansa börn og foreldrar þeirra saman enda eru börnin bara 2-3 ára. Þrátt fyrir ungan aldur læra börnin einfalda dansa og hafa mjög gaman af, að sögn danskennara í skólanum.

Eftir Svanhvíti Ljósbjörgu

svanhvit@mbl.is

Flestir foreldrar kannast við það að ung börn geta haft ansi mikla hreyfiþörf, svo mikla að hinir fullorðnu eru stundum orðnir uppgefnir á að elta ungviðið. Dansskóli Ragnars Sverrissonar býður nú upp á skemmtilegt dansnámskeið fyrir 2-3 ára börn þar sem foreldrar taka þátt í tímunum. Kristín Inga Arnardóttir danskennari segir að námskeiðið hafi fengið mjög góðar viðtökur en námskeiðið hefur verið haldið í tvö ár. „Við höldum að jafnaði tvö námskeið á ári, eitt námskeið á önn. Það er alveg nauðsynlegt að hafa foreldra með börnunum á námskeiðinu þegar börnin eru svona ung en auk þess er það mjög skemmtilegt fyrir foreldrana. Foreldrarnir dansa og dilla sér með börnunum en það er ekki fyrr en börnin eru fjögurra ára gömul sem þau mæta ein í danstíma.“

Þroskandi dansar

Kristín Inga talar um að vissulega séu ekki flóknir dansar í tímum fyrir svona ung börn en þó séu þetta skemmtilegir dansar fyrir börn. „Þetta er mikill leikur og krakkarnir eru að hreyfa sig og dilla sér. Börnin læra mjög mikið á þessu og þau þjálfast og þroskast í dansinum, þó dansarnir sjálfir séu ekki mjög flóknir. Það má til dæmis sjá mikinn mun á börnunum frá fyrsta tímanum til þess síðasta. Þá eru þau búin að læra helling af dönsum auk þess sem sum börnin halda áfram og fara á framhaldsnámskeið. Á framhaldsnámskeiðinu læra þau aðra dansa og dansa við önnur lög.“

Dugleg að hreyfa sig

Námskeiðið stendur yfir í 12 vikur og hver tími er um 30 mínútur. Í hverjum hóp eru 20 þátttakendur og Kristín talar um að það sé mjög gaman að fylgjast með þróuninni hjá börnunum. „Eftir námskeiðið eru börnin duglegri að fylgjast með og hreyfa sig og þau eru orðin mjög flink að dansa. Svo verða þau einhvern veginn rólegri. Ég tek mjög eftir því að þegar þau eru byrjuð að læra dansana þá verða þau rólegri og öruggari sem er gaman að sjá,“ segir Kristín og bætir við að vitanlega skemmti börnin sér konunglega líka. „Þau hafa mjög gaman af þessu og foreldrarnir hafa sömuleiðis gaman af þessu. Foreldrarnir læra náttúrlega dansana líka og þá er hægt að dansa þá heima. Í einum tímanum mega börnin mæta í grímubúningum og þá eru þau að dansa í prinsessubúning, Latabæjarbúning eða öðru slíku sem börnin hafa vitanlega mjög gaman af. Á haustönninni er jólaball þar sem krakkarnir sýna hvað þau hafa lært ásamt því að dansa og syngja jólalög. Á vorönninni er svo nemendasýning þar sem nemendurnir dansa með foreldrum sínum og fá viðurkenningu.“