Sigurður Þ. Ragnarsson veðurfræðingur á Stöð 2 eða Siggi stormur eins og hann er kallaður á hrós skilið fyrir að vekja athygli á dæmalausri þjónustu tannlækna á höfuðborgarsvæðinu á frídegi verslunarmanna.

Sigurður Þ. Ragnarsson veðurfræðingur á Stöð 2 eða Siggi stormur eins og hann er kallaður á hrós skilið fyrir að vekja athygli á dæmalausri þjónustu tannlækna á höfuðborgarsvæðinu á frídegi verslunarmanna.

Ég lít ekki lengur á tannlækna sem lækna,“ var haft eftir veðurfræðingnum í DV í vikunni. „Þetta eru bara viðgerðarmenn sem vinna bara þegar þeim hentar. Eini munurinn á þessum viðgerðarmönnum og til að mynda bílaviðgerðarmönnum er að það er vakt allan sólarhringinn hjá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda. Ég hefði getað látið laga bílinn þarna um nóttina en fékk ekki aðstoð fyrir barnið mitt.“

Tildrög málsins eru þau að 10 ára sonurinn fékk heiftarlega tannpínu og þegar leitað var eftir aðstoð var hana hvergi að fá. Neyðarþjónusta tannlækna var nafnið eitt og ekki boðið upp á tannlæknaþjónustu á slysadeild Landspítalans. Ekki heldur á læknavaktinni í Kópavogi og ekki hvarflaði að fjölskyldutannlækninum að slíta sig frá sólbaði til að aðstoða. Svo fór að Sigurður skar sjálfur á meinið til að lina þjáningar sonarins.

Tannlæknafélag Íslands og tannlæknadeild Háskóla Íslands buðu börnum og unglingum ókeypis tannlæknaþjónustu fjóra laugardaga í vor. Þá kom fram að þegar þrengdi að fjárhagnum sparaði fólk gjarnan við sig tannviðgerðir og eftirlit. Í tilkynningu kom fram að stjórnvöld hafi dregið stórlega úr þátttöku í kostnaði vegna tannheilsu barna og við blasti hætta á tannskemmdum og vanlíðan.

Er ekki eitthvað að þegar enginn tannlæknir er á vakt á höfuðborgarsvæðinu eða eru þetta bara viðgerðarmenn sem hafa engar siðferðislegar skyldur og vinna aðeins þegar þeim hentar?