Það sem skilgreinir gáfur okkar er möguleikinn á að geta hugsað út fyrir hvert einstakt tilvik.

Það sem skilgreinir gáfur okkar er möguleikinn á að geta hugsað út fyrir hvert einstakt tilvik. Það sem ég á við með þessum almennu orðum er að enginn er gáfaður sem tekur öllu bókstaflega, sem getur ekki leitt almenna reglu af einstökum dæmum, eða öfugt. Sá sem heyrir málsháttinn að betri sé einn fugl í hendi en tveir í skógi, og heldur að hann snúist aðeins um fugla, telst tæplega læs þó hann skilji setninguna orð fyrir orð. Læsi er ekki aðeins að breyta texta í orð, eða orðum í setningar, heldur að breyta textanum í hugsun.

Hugsunin á bak við að betri sé einn fugl í hendi en tveir í skógi er væntanlega eitthvað á þá leið að það sem við höfum ekki í hendi sé lítils virði, að við eigum að einbeita okkur að smærri en áreiðanlegri hagsmunum í stað þess að taka áhættu og freista meiri ávinnings. Málshátturinn nær að útskýra þessa hugsun á einfaldari, styttri og fallegri máta. Af þeim sökum situr hann eftir sem eftirminnileg birtingarmynd hugsunarinnar fremur en sú romsa sem ég lét frá mér er ég túlkaði hann. Eins og ég legg dæmið upp geta orð verið afstæð, en hugsanirnar á bak við ekki, þær þýða alltaf það sama, hvernig sem þær eru orðaðar.

Í samfélögum sem kenna sig við réttarríki er leitast við að lög séu orðuð með almennum hætti. Það þýðir til dæmis að lögbækur okkar eru ekki safn málshátta, sem væri vissulega forvitnilegt, heldur ótilviksbundnar reglur. Þá reynir á gáfur okkar til að breyta almennt orðuðum texta og heimfæra hann yfir á einstök tilvik. Sá sem les lagareglu sem segir að markaðsmisnotkun sé bönnuð en gerir enga tengingu milli þess og þess tilviks þegar banki lánar fyrirtæki peninga til að kaupa hlutabréf í bankanum, gegn veði í hlutabréfunum, er ekki læs þó hann geti lesið regluna orð fyrir orð. Hann skortir gáfurnar, eða í besta falli viljann, til að hugsa út fyrir tilvikið.

Stundum er samt ágætt að hugsa ekki út fyrir tilvikið. Mér var til dæmis sagt það sem ungum dreng að maður ætti aldrei að dæma bækur eftir því hvernig kápa þeirra liti út. Þótt ég heyrði þetta spakmæli oft síðar í formi málsháttar þá sá ég enga ástæðu til að draga neina almenna reglu af þessu. Ég leit svo á að þetta væri regla sem gilti aðeins um bækur. Mörgum skemmtilegum ritverkum hef ég kynnst vegna þess hversu bókstaflega ég tók þessum málshætti. Um leið og einhverju er breytt í almenna reglu er hætta á að slagkrafturinn fari úr hugsuninni. Nú vona ég að krafa samfélagsins um almenn lög muni ekki verða til þess að enginn verði sakfelldur fyrir til dæmis markaðsmisnotkun í aðdraganda bankahrunsins. Við viljum nefnilega ekki stjórna samfélaginu með málsháttum, það myndi skapa jafnvel stærri vanda.

bergur.ebbi.benediktsson@gmail.com

Bergur Ebbi