STRAX í kjölfar bankahrunsins, og raunar í aðdraganda þess einnig, var ljóst að mikilvægi þess að halda góðu sambandi við Breta yrði seint ofmetið.

STRAX í kjölfar bankahrunsins, og raunar í aðdraganda þess einnig, var ljóst að mikilvægi þess að halda góðu sambandi við Breta yrði seint ofmetið. Strax í byrjun október átti auðvitað þáverandi forsætisráðherra að biðja um fund með Gordon Brown til þess að skýra okkar sjónarmið. Slíkur fundur hefði getað skipt sköpum um það sem á eftir fór.

Síðan þá hefur tilefni slíks fundar síst minnkað. Það er orðið verulegt undrunarefni að fundur æðstu ráðamanna Íslands og Breta hefur aldrei farið fram síðan hrunið skall á, svo vitað sé. Fundur með hollenska forsætisráðherranum hefði líka og væri, á einhverjum tímapunkti fljótlega, afskaplega viðeigandi.

Íslenskir ráðamenn virðist gripnir fundafælni, nú þegar bein samskipti við ýmsa erlenda ráðamenn hafa sjaldan verið mikilvægari. Hverju sætir?

Í ágætri grein Kristrúnar Heimisdóttur í Morgunblaðinu í gær er rakið hvernig viðhorf þeirra sem vilja tefja endurreisnaráætlun Íslands innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sínum hagsmunum í hag, hafa orðið ítrekað ofan á í Washington. Enginn íslenskur ráðamaður hefur hins vegar látið sjá sig þar.

Hvenær ætlar forsætisráðherra að bóka fund með Dominique Strauss-Kahn yfirmanni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til þess að skýra okkar málstað? Eftir ár, tvö eða kannski sjö?

Af hverju ekki núna?

Höfundur er þingmaður.