Hraðakstur Ólíklegt er að íslenska lögreglan hafi gómað eins marga fyrir hraðakstur og starfsfélagar þeirra í Frakklandi sem gómuðu 17. 500 á sex mánuðum.
Hraðakstur Ólíklegt er að íslenska lögreglan hafi gómað eins marga fyrir hraðakstur og starfsfélagar þeirra í Frakklandi sem gómuðu 17. 500 á sex mánuðum. — Morgunblaðið/Sverrir
LÖGREGLUMENN á ómerktum bifreiðum hafa reynst mörgum frönskum ökumanninum óþægur ljár í þúfu.

LÖGREGLUMENN á ómerktum bifreiðum hafa reynst mörgum frönskum ökumanninum óþægur ljár í þúfu. Hátterni sem þeir hafa orðið vitni að þykir með ólíkindum, svo sem að bílstjórar hafi fætur uppi á mælaborði eða lesi blöð er þeir þjóta eftir hraðbrautum, að ekki sé minnst á tal í síma á fleygiferð. Lögreglan hefur um tveggja ára skeið sent ómerktar bifreiðir öðru hverju út í umferðina til eftirlits. Það hefur gefist vel en langflest brotin sem þeir hafa afskipti af varða notkun farsíma í akstri.

50.000 brot á mánuði

Um 450 bílar og mótorhjól hafa sinnt eftirliti af þessu tagi undanfarna mánuði. Afrakstur þeirra eru um 50.000 brot á mánuði. Ofursti í lögreglusveitum hersins, sem einkum sinnir löggæslu í dreifbýli, segir lögregluna í sjálfu sér engan áhuga hafa á tölfræðinni, heldur fyrst og fremst því að hindra fólk í að aka hættulega eða kæruleysislega.

Rúmur þriðjungur, 36%, ökumannanna brotlegu var staðinn að því að tala í farsíma á ferð. Tíundi hluti ökumanna ók án bílbelta eða mótorhjóli án hjálms. Í einu tilviki stöðvaði lögreglan bílstjóra sem rakaði sig meðan bíll hans silaðist áfram í umferðinni á hringveginum um París.

Hraðskreiðar bifreiðir

Lögreglan hefur fengið í sína þjónustu mjög hraðskreiðar bifreiðir til að elta uppi menn með þungan bensínfót. Gómaði hún 17.500 slíka fyrstu sex mánuði ársins. Þar á meðal voru margir útlendingar, flestir frá Þýskalandi. Næstfjölmennastir voru Spánverjar og Hollendingar í þriðja sæti. Hraðakstursbrot geta varðað sektum, ökuleyfissviptingu eða jafnvel upptöku bílsins.

Í júlí voru nokkrir breskir ökumenn með blýfót stöðvaðir eftir að hafa mælst á milli 194 og 210 km/klst ferð. Voru þeir sektaðir frá 750 og upp í 2.250 evrur. Þeir sluppu hins vegar við haldlagningu bíla sinna sem voru ekki af verri gerðinni. Þar á meðal voru tveir Bugatti Veyron-lúxusbílar, tveir Mercedes SLR McLaren-sportbílar og Ferrari F430. agas@mbl.is