Kristín Þórsdóttir var fædd á Hnjúki í Skíðadal 30. maí 1919. Hún lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri 1. ágúst sl.

Foreldrar hennar voru Þór Vilhjálmsson, f. 13.3. 1893, d. 6.12. 1975, frá Bakka í Svarfaðardal og Engilráð Sigurðardóttir, f. 1.6. 1896, d. 9.8.1993, frá Göngustöðum í Svarfaðardal. Systkini Kristínar eru Ósk, f. 1921, látin, Eva, f. 1923, býr í Reykjavík, Helga, f. 1927, látin, Rannveig, f. 1929, látin, Vilhjálmur, f. 1930, býr á Dalvík og uppeldissystir hennar, Anna Gréta Þorbergsdóttir, f. 1944.

Eiginmaður Kristínar var Þórarinn Jónsson frá Hæringsstöðum í Svarfaðardal, f. 3. júní 1918, d. 25.6. 1992. Þau giftu sig 6.6. 1949, og eignuðust 9 börn. Þau eru: 1) Vilhjálmur Þór, f. 1949, börn hans og Ástu S. Guðnadóttur eru Óskar Þór, Rannveig og Þór. 2) Jón, f. 1951, maki Ingibjörg R. Kristinsdóttir, dætur þeirra Kristín Svandís, Eydís Ósk og Brynhildur Heiða. 3) Sigurhjörtur Sveinn, f. 1952. 4) Baldur Óskar, f. 1954. 5) Friðrik, f. 1955, maki Sigurbjörg Karlsdóttir, börn þeirra Karl Heiðar, Atli Þór og Anna Kristín. 6) Ingibjörg Engilráð, f. 1956, maki Páll Harðarson, börn þeirra Þórarinn, látinn, og Sigrún. 7) Halldóra Lilja, f. 1958, maki Halldór Jónasson, börn þeirra Þórarinn Már, Bjarki Már og Guðrún Þórdís. 8) Árni Sigurður, f. 1960, maki Kristín S. Sigtryggsdóttir, börn þeirra Þórhildur Sara, Kjartan Snær, Eiður Smári og Jón Steinar. 9) Torfi, f. 1962, dætur hans og Gunnlaugar Sigurðardóttur eru Sóley Sandra og Lilja Lind. Barnabarnabörn Kristínar eru 10.

Kristín flutti með foreldrum sínum frá Hnjúki að Bakka í Svarfaðardal þegar hún var fjögurra ára og átti þar heimili allt til ársins 1992 að undanskildum tveimur árum sem hún og Þórarinn bjuggu á Böggvisstöðum við Dalvík. Að hausti 1992 flutti hún að Mímisvegi 10 Dalvík og bjó þar með tveimur sonum sínum til dauðadags, að undanskildum nokkrum vikum sem hún dvaldi á Dvalarheimilinu Dalbæ í Dalvík.

Kristín verður jarðsungin frá Dalvíkurkirkju í dag, 14. ágúst, og hefst athöfnin kl. 13.30.

Jarðsett verður að Tjörn.

„Einstakur“ er orð

sem notað er þegar lýsa á

því sem engu öðru er líkt,

faðmlagi

eða sólarlagi

eða manni sem veitir ástúð

með brosi eða vinsemd.

„Einstakur“ lýsir fólki

sem stjórnast af rödd síns hjarta

og hefur í huga hjörtu annarra.

„Einstakur“ á við þá

sem eru dáðir og dýrmætir

og hverra skarð verður aldrei fyllt.

„Einstakur“ er orð sem best lýsir þér.

(Terri Fernandez)

Elsku tengdamamma. Ég kynntist þér fyrir rúmum 30 árum þegar ég hóf búskap með Jóni syni þínum. Þá hafði ég aðeins séð þig einu sinni og þekkti þig varla í sjón þótt við byggjum í sömu sveit. Það er skemmst frá því að segja að þessi saklausa afdalastúlka var ein taugahrúga þegar hún gekk inn á Bakkaheimilið til tilvonandi tengdaforeldra sinna. Móttökurnar sem ég fékk voru hreint ótrúlegar. Þarna stóðst þú róleg, blíð og elskuleg og bauðst mig velkomna. Eldhúsborðið var hlaðið heimabökuðu bakkelsi með kaffinu og mér leið eins og ég væri einhver drottning. Þegar árin liðu og dætur mínar fóru að koma í heiminn var aldrei neitt mál að biðja þig að passa þær því það var alltaf sama svarið hjá þér. „Það er alveg sjálfsagt, komdu bara með þær til mín, það er svo gaman að hafa þær.“ Þannig hefur þú alltaf verið, aldrei neitt mál að leita til þín og alltaf boðin og búin að hjálpa öðrum. Hin síðari ár höfum við oft setið saman við eldhúsborðið og spjallað saman um lífið og tilveruna og eru þær stundir mér ógleymanlegar og mikils virði. Það var gott að koma til þín og spjalla og alltaf fór ég léttstígari út frá þér. Öll okkar samskipti voru ljúf og góð. Þú sagðir aldrei eitt styggðaryrði við mig og aldrei fannstu að neinu sem ég sagði eða gerði og það er nú alveg einstök tengdamamma. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að eignast heimsins bestu tengdamömmu. Þú varst alveg dásamleg elsku Stína og áttir engan þinn líka. Minningarnar um þig eru allar perlum prýddar. Hafðu þökk fyrir allt og allt elsku ljúfa vinan mín.

Megi eilíft ljós lýsa þér.

Ingibjörg R. Kristinsdóttir.

Elsku Stína amma. Takk fyrir allar góðu samverustundirnar, það var svo gott og gaman að koma til þín á Dalvík. Ég var svo heppin að eiga bestu ömmur í heimi, þig ásamt Laugu ömmu. Þú varst alltaf svo glöð og komst öllum til að hlæja af því að þú hlóst svo mikið og sérstaklega að okkur krökkunum þegar við gerðum einhverja vitleysu eins og þegar ég var lítil og sagðist ekki borða soðið brauðið þitt því það væri kúbein í því (þá meinti ég kúmen), þá hlóstu sko mikið. Eitt sem ég man sérstaklega eftir var þegar þú kenndir mér Olsen Olsen og kasínu og ég var alltaf að biðja þig um að spila kasínu við mig því enginn af vinum mínum kunni kasínu. Ég mun alltaf muna eftir þér, þú verður alltaf í hjarta mínu. Guð geymi þig, elsku amma.

Þín,

Sigrún.

Þeim hefur fækkað ört síðustu misserin ættarhöfðingjunum í fjölskyldu okkar og nú kveðjum við Kristínu Þórsdóttur móðursystur okkar – Stínu á Bakka. Að leiðarlokum horfum við yfir farinn veg þar sem margs er að minnast. Við sjáum fyrir okkur margar myndir en sennilega er hún sterkust myndin af Stínu í eldhúsinu sínu á Bakka, þangað sem allra leið lá, á öllum tímum dags, sífelldur erill af fólki að koma og fara. Mitt í hringiðunni stóð þessi trausta og hægláta kona sem hélt öllu gangandi, fylgdist með öllu og var á sinn rósama hátt, með sitt hlýja bros, miðpunktur þessa mannmarga heimilis. Fjölskyldan var stór en auk hennar áttu margir viðdvöl um lengri og skemmri tíma á Bakka, bæði hjá Stínu og Tóta en einnig á efri hæðinni hjá Helgu og Ingva. Eins og margar konur af hennar kynslóð stóð hún vaktina ósérhlífin og starfssöm alla daga. Alltaf hlaðin borð af mat og bakkelsi og það er auðvelt að kalla fram minningu um lyktina og bragðið af nýbökuðum vínarbrauðum og fleira góðgæti sem varð til í eldhúsinu hjá Stínu. Nú er borðið autt og hlátrasköll liðinna tíma þögnuð en minningarnar lifa áfram í huga okkar um ókomna tíð.

Ættleggur Stínu er orðinn fjölmennur og fylgdist hún vel með öllu sínu fólki og naut góðra samskipta við þau alla tíð. Hún var líka áhugasöm um hagi frændgarðsins og ótrúlega minnug t.d. á nöfn nýjustu systurbarnabarnanna sem bættust í hópinn. Stína hélt andlegri reisn sinni til hinstu stundar og kveðjum við systkinin og fjölskyldur okkar mæta konu með virðingu og þökk. Börnum hennar og aðstandendum öllum vottum við innilega samúð.

Kristinn, Sigríður, Þór Ingi og Einar.