Sjálfsöruggari Alexander Örn á auðveldara með að tjá tilfinningar sínar eftir námskeið í Foreldrahúsi en hér er hann ásamt móður sinni, Hafdísi Erlu.
Sjálfsöruggari Alexander Örn á auðveldara með að tjá tilfinningar sínar eftir námskeið í Foreldrahúsi en hér er hann ásamt móður sinni, Hafdísi Erlu. — Morgunblaðið/Kristinn
Alexander Örn Arnarsson hefur farið þrisvar sinnum á námskeiðið Börnin okkar hjá Foreldrahúsi og hann segist aldrei ætla að hætta þar. Móðir hans segist sjá mikinn mun á honum, hann sé með meira sjálfstraust og kunni að tjá tilfinningar sínar.

Eftir Svanhvíti Ljósbjörgu

svanhvit@mbl.is

Námskeiðið Börnin okkar hjá Foreldrahúsi hefur verið mjög vinsælt og til að mynda hefur Alexander Örn Arnarsson, sem er 12 ára gamall, farið þrisvar sinnum á slíkt námskeið. Hann segist aldrei ætla að hætta á námskeiðinu, svo vel líður honum þar, að sögn móður hans, Hafdísi Erlu Ingvarsdóttur. „Hann hlakkar alltaf jafn mikið til að nýtt námskeið byrji og honum líður alltaf vel þarna. Hann fer á námskeið í haust og þar sem hann, að eigin sögn, ætlar aldrei að hætta fer hann bráðum í unglingahópinn. Honum finnst þetta það skemmtilegt að núna vill yngri dóttir mín endilega fara á svona námskeið líka,“ segir Hafdís og hlær.

Gríðarlegur munur

Hafdís segist sjá mikinn mun á honum eftir hvert námskeið og er því mjög sátt við afrakstur námskeiðsins. „Mér skilst að það hafi ekki sést mikill munur innan grunnskólans en ég sá gríðarlegan mun. Alexander er greindur með athyglisbrest og hann tekur engin lyf. Þetta var ein af þeim lausnum sem okkur var bent á og námskeiðið hefur hjálpað okkur verulega. Hann er bara annað barn, með miklu meira sjálfstraust og núna kann hann að tjá tilfinningar sínar og veit hvað hann á að gera við þær. Hann vissi aldrei hvernig hann átti að takast á við tilfinningarnar, hann varð reiður og vondur og lamdi frá sér. Þannig er það ekki í dag.“

Opnar sig meira

Aðspurð hvort Hafdís sjái einhvern mun á Alexander eftir hvert námskeið segir hún svo vera. „Mér finnst hann alltaf opna sig meira og meira eftir hvert námskeið, hann verður tilfinningaríkari og vill tjá sig meira. Námskeiðin hjálpa honum því alltaf. Ég finn líka að yfir sumartímann þegar engin námskeið eru lokast hann svolítið aftur en um leið og ég fer að tala um að nú byrji námskeið á ný lifnar yfir honum. Þá er líka rútína og regla komin aftur á og það hentar honum vel,“ segir Hafdís og bætir við að á námskeiðinu séu alls konar börn. „Ég hef reyndar hitt lítið af krökkunum en Alexander er duglegur að segja mér frá og þetta er mjög blandaður hópur. En það lyndir öllum mjög vel saman.“

Unnið í gegnum leiki

Tvisvar sinnum meðan á námskeiðinu stendur fara foreldrar með börnunum á fund og Hafdís segir að það sé sérstaklega gaman. „Það var gott að fá að fylgjast með, fá að spyrja um námskeiðið og sjá hve gott utanumhald var þar. Í fyrra skiptið var okkur sagt hvernig þetta var uppbyggt og hvað var gert. Upphaflega hélt ég að þetta væri meira fræðilegt en það er alls ekki þannig. Börnin fara heldur ekki í gegnum eitthvert rosalegt tilfinningaprógramm heldur er unnið í gegnum alls kyns leiki. Til að mynda búa þau sér til andlitsgrímur, sem þeim finnst rosalega skemmtilegt. Að utan þurfa þau svo að mála grímuna eins og fólk sér þau og að innan mála þau grímuna eins og þau sjá sjálf sig. Það er ótrúlegt að sjá hvað kemur út úr því og er mjög spennandi. Svo er gaman að sjá að krakkarnir koma alltaf glaðir út og þeim líður sannarlega ekki illa þarna.“