Sigurlaug Sigurðardóttir fæddist á Vigdísarstöðum í Miðfirði í Vestur-Húnavatnssýslu 4. febrúar 1919. Hún lést á Vífilsstöðum 8. ágúst sl. Foreldrar hennar voru Sigurður Bjarnason, f. 1. janúar 1880, d. 29. desember 1940, og Ingibjörg Daníelsdóttir, f. 19. nóvember 1879, d. 11. október 1970. Systkini Sigurlaugar voru Frímann, f. 1903, d. 1979, Sigríður, f. 1905, d. 1998. Margrét, f. 1906, d. 2001, Bjarni, f. 1910, d. 1998, Hólmfríður, f. 1914, d. 2002, og Kristín, f. 1917, d. 1940. Sigurlaug ólst upp á Vigdísarstöðum, en flutti til Reykjavíkur 16 ára gömul. Sigurlaug vann við ýmis störf fram eftir aldri. Upp úr 1970 tók ásamt öðrum að sér rekstur Gufubaðstofunnar á Hótel Sögu, sem hún síðan rak fram til 1987.

Sigurlaug giftist 19. maí 1946 Jón Pálssyni póstfulltrúa frá Sauðanesi í Austur-Húnavatnssýslu, f. 28. september 1914, d. 1985. Þau bjuggu lengst af í Einarsnesi 64 í Reykjavík. Frá árinu 2004 naut Sigurlaug góðrar aðhlynningar á Hjúkrunarheimilinu Vífilsstöðum. Sonur Jóns og Sigurlaugar er Páll Árni, f. 1950, kvæntur Ásdísi Björgvinsdóttur, f. 1953. Þau eiga tvö börn, Jón Helga, f. 1976, í sambúð með Lilju Garðarsdóttur, f. 1980, og Kristbjörgu, f. 1983.

Útför Sigurlaugar fer fram frá Neskirkju í dag, 14. ágúst, kl. 11.

Ung stúlka kemur og sækir kærastann í fyrsta sinn, lítur inn um gluggann og sér granna og fínlega konu, klædda eftir nýjustu tísku. „Ég sá systur þína vera að kíkja,“ segi ég. „Ég á enga systur,“ svarar kærastinn. Já, þetta var tilvonandi tengdamóðir mín, alltaf klædd eftir nýjustu tísku þegar hún var komin úr nuddklæðunum. Ég man enn hvernig hún var klædd þarna við gluggann. Hún hugsaði alltaf vel um útlitið og hárlagningin var fastur liður einu sinni í viku. Sigurlaug, eða Lauga eins og nánir vinir og ættingjar kölluðu hana, var lágvaxin og grönn kona, en hún var sterk og karakterinn var ekki síður sterkur. Alltaf var hún boðin og búin að hjálpa þeim sem áttu við veikindi eða aðra erfiðleika að stríða, sama hvenær sólarhringsins var, sendi jafnvel ónafngreind peningaumslög til þeirra sem áttu í erfiðleikum. Nuddið var hennar líf og yndi og stundaði hún það á meðan hún gat staðið. Hún lærði nudd á nuddstofu Jónasar og rak síðan Gufubaðsstofuna á Hótel Sögu í allmörg ár eða fram til 1987, fyrst í samstarfi með öðrum en síðar ein. Eftir að hún hætti rekstrinum kom hún upp nuddstofu heima þar sem hún tók á móti vinum sínum ef svo bar undir. En heilsan fór versnandi og í maí 2003 var hún lögð inn á spítala og átti ekki afturkvæmt heim í húsið sitt í Einarsnesinu sem hún unni svo mjög. Síðar lá leiðin á Vífilsstaði, sem þá var nýlega orðið, hjúkrunarheimili, þar sem hún dvaldi fram til síðasta dags og naut góðrar aðhlynningar alveg frábærs starfsfólks. Ferðirnar okkar norður í sumarbústaðinn urðu margar og mikið gróðursett. Þá fannst Laugu gott að láta stjana við sig uppi í efri kojunni í gamla húsinu eftir annasama viku á nuddstofunni. Hún lét reisa minnisvarða um skógrækt Jóns, mannsins síns, í skógræktargirðingunni í landi Sauðaness í Austur-Húnavatnssýslu, en það var líf og yndi Jóns að gróðursetja og koma upp skógi sem við fjölskyldan njótum nú góðs af. Lauga var barnabörnunum tveim góð amma og átti alltaf eitthvað gott í munninn, þótt það væri að vísu ekki uppáhaldið hennar að standa við eldavélina. En hún átti samt auðvelt með að töfra fram kræsingar ef svo bar undir.

Sigurlaugu var margt til lista lagt og var í Myndlistaskólanum á yngri árum. Hún stundaði þó ekki listina fyrr en seinna en þá fór hún að mála á postulín. Framleiðslan var ekki lítil, plattar, vasar, bollar og margt fleira. Það útheimti ótrúlega orku að nudda alla daga og fara síðan flesta laugardaga að mála. Það lýsir því hve atorkusöm hún var, og kannski var sú mikla atorka að einhverju leyti annars staðar frá því eitthvað dulrænt hafði hún í kringum sig. Elsku Lauga, þakka þér fyrir allar góðu stundirnar.

Ásdís.

Núna er komið að kveðjustund, á svona tímum er svo margt sem mann langar að segja en fátt er um orð.

Frá því að ég byrjaði að muna eftir mér bjó amma Lauga ein í þessu stóra húsi við Einarsnesið. Ég var stundum í pössun hjá henni og þótti mér það ekki leiðinlegt. Það var alltaf spennandi að hlaupa niður í eldhús þegar maður heyrði að flugvél væri að lenda eða taka á loft. Oftar en ekki sat ég líka undir nuddbekknum á meðan amma var að nudda kúnnana og lék mér að einhverju gömlu dóti. Stundum fékk ég líka að leika í snyrtidótinu hennar sem var auðvitað mjög spennandi þar sem hún átti hún alls kyns krukkur og túpur. Það sem ég man einna helst eftir í húsinu við Einarsnesið er laufabrauðsbaksturinn, einn mikilvægasti hlutinn af jólunum. Þetta var alltaf gert heima hjá ömmu Laugu. Þrátt fyrir að í seinni tíð hafi þetta flust úr Einarsnesinu finnst mér þetta alltaf vera tenging við ömmu.

Það er ekki erfitt að viðurkenna að amma Lauga hafi dekrað við okkur systkinin. Það virtist að aldrei ætti að spara þegar kom að gjöfum, líklega hefur það eitthvað haft með það að gera að við vorum bara tvö barnabörnin. En hún var alltaf rausnarleg þegar kom að því að gefa. Amma Lauga var mjög mikill karakter og maður heyrði það frá fleirum. Með tímanum varð hún meiri og meiri prinsessa, enda af konungsættum eins og sagt hefur verið. Hún elskaði að láta stjana við sig en það gat stundum verið erfitt að neita henni um það. Eitt af því sem hún þráði mest var að ég flytti loksins heim en hún spurði mig oft þegar ég kom í heimsókn hvenær ég kæmi heim. Henni leist ekkert á að ég væri að hanga of lengi í Svíþjóð. Ósk sína fékk hún uppfyllta í vetur en það hafði tekið lengri tíma en áætlað var að uppfylla þessa ósk hennar. Það var gott að geta glatt hana með þeim fréttum að ég væri flutt heim en hún virtist mjög ánægð.

Amma hafði alltaf sterkar skoðannir, alveg fram í það síðasta. Ég vona, þrátt fyrir að ég hafi ekki alltaf gert eins og hún hefði viljað, að hún samþykki niðurstöðuna.

Elsku amma, ég vona að þú hafir það gott.

Kristbjörg.