Leit Tilkynningaþjónusta fyrir ferðamenn, ekki síst á hálendinu, gæti auðveldað leit ef þeir týnast og jafnvel komið í veg fyrir að leita þurfi að þeim.
Leit Tilkynningaþjónusta fyrir ferðamenn, ekki síst á hálendinu, gæti auðveldað leit ef þeir týnast og jafnvel komið í veg fyrir að leita þurfi að þeim. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hálendi Íslands er heillandi, hrikalegt og víða hættulegt. Þar hefur fólk bjargast naumlega en aðrir týnst og aldrei fundist. Öflug tilkynningaþjónusta ferðamanna gæti bætt þar úr.

Eftir Guðna Einarsson

gudni@mbl.is

ÖRYGGISMÁL erlendra ferðamanna bar enn á góma þegar ferðamanni var bjargað úr ánni Kreppu á þriðjudaginn var. Mörgum er í fersku minni þegar tveir þýskir ferðamenn týndust í Skaftafellsþjóðgarði, líklega á Svínafellsjökli, í ágúst 2007. Þeir fundust ekki þrátt fyrir mikla leit.

Í kjölfar hvarfs Þjóðverjanna tveggja mótaði Slysavarnafélagið Landsbjörg (SL) tillögur að eflingu tilkynningarþjónustu ferðamanna sem félagið hefur annast frá 1995. Þessi þjónusta hefur ekki verið mikið auglýst. Hugmyndin var kynnt á fundi með Ferðamálaráði haustið 2007. Þá höfðu rúmlega 100 ferðamenn nýtt sér tilkynningaþjónustuna, langflestir útlendir, og gert ferðaáætlanir í samvinnu við SL og látið fara yfir búnað sinn. Að jafnaði hafði SL þurft að fylgja 2-3 ferðaáætlunum eftir á hverju ári og leiddu sumar til leitar og björgunar. Auk þess að veita þessa þjónustu hefur SL leigt ferðamönnum neyðarsenda til að hafa með sér.

Þrennskonar skráning

Hugmyndin var að vera með þrenns konar skráningu í kerfið. Einfalda skráningu á vefsíðu tilkynningaþjónustunnar, að fólk skrái sig inn á tiltekin landsvæði með skráningu í bók á staðnum og skráningu með leigu á neyðarsendi og gerð ferðaáætlunar.

Landsbjörg kynnti málið fyrir samgönguráðuneytinu og óskaði eftir styrk til að efla tilkynningaþjónustuna. Þá var gerð kostnaðaráætlun. Uppsetning kerfis sem byggðist á tilkynningum um vefinn, skráningu í bækur á ferðamannastöðum, kaupum á neyðarsendum o.fl. var metin 17,7 milljónir króna. Árlegur rekstur og viðhald var áætlað vera rúmlega 2,6 milljónir króna.

Hugmyndin var að byrja með þetta verkefni í tengslum við Vatnajökulsþjóðgarð og ferðir manna yfir jökulinn, enda svæðið hættulegt.

Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur mikinn áhuga á að halda utan um öryggismál ferðamanna, að sögn Kristins Ólafssonar, framkvæmdastjóra SL. Hann sagði nauðsynlegt að gera ráðstafanir til að auka öryggi ferðamanna. Það væri ekki gott til afspurnar að hér týnist fólk á ferðalögum og finnist ekki.

„Ferðamálayfirvöld tala mikið um að markaðssetja Ísland sem heilsárs áfangastað fyrir útlendinga. Það kemur orðið margt ferðafólk á veturna þegar veður eru válynd og færð erfið. Okkur þykir mikilvægt að landið sé ekki markaðssett með þessum hætti nema búið sé að hugsa um öryggisþáttinn,“ sagði Kristinn. Hann taldi ekki óeðlilegt að hér væri tilkynningaskylda fyrir þá sem væru að leggja í lengri hálendisferðir. Farið væri yfir ferðaáætlanir og búnað og gengið úr skugga um að þeir væru með tryggingar vegna leitar og björgunar.

Helga Haraldsdóttir, skrifstofustjóri ferðamála í iðnaðarráðuneytinu, segir málið hafa komið inn í samgönguráðuneytið og fylgt síðan málaflokknum þegar hann fluttist í iðnaðarráðuneytið. Hún segir málið hafa verið flokkað sem styrkbeiðni. „Málið er til skoðunar í ráðuneytinu og hefur kannski verið það svolítið lengi,“ sagði Helga.

Örugg ferðalög

ÖRYGGISLEIÐBEININGAR fyrir ferðamenn á Íslandi er að finna á vefnum www.safetravel.is . Vefurinn er á fimm tungumálum auk íslensku.

Kristinn Ólafsson, framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar, segir að hér á landi séu vissulega hættur á hverju strái. En viti fólk af þeim geti það auðveldlega forðast þær flestar. Hann telur æskilegast ef hægt er að fræða erlenda ferðamenn og leiðbeina þeim um hvað beri að varast.

Á www.safetravel.is er farið yfir ýmsar hættur sem steðja að ferðafólki á ferð í íslenskri náttúru og hvernig megi forðast þær. Þar er m.a. fjallað um veðurfarið, akstur á þjóðvegum og hálendinu, vélsleða- og vélhjólaferðir. Einnig eru hagnýt ráð fyrir göngufólk, hestafólk, þá sem stunda klifur, siglingar, köfun og sund.