Verklegar æfingar Ljáðu mér orð er sniðug myndræn orðabók fyrir börnin sem er sett fram á rafrænan hátt.
Verklegar æfingar Ljáðu mér orð er sniðug myndræn orðabók fyrir börnin sem er sett fram á rafrænan hátt. — Morgunblaðið/Golli
Ljáðu mér orð heitir myndræn orðabók sem hugsuð er sem hjálpartæki til að auðvelda barni með annað móðurmál en íslensku að eiga samskipti við börn og fullorðna þegar það byrjar í leikskóla. Bókin er lokaverkefni þeirra Elísabetar V.

Ljáðu mér orð heitir myndræn orðabók sem hugsuð er sem hjálpartæki til að auðvelda barni með annað móðurmál en íslensku að eiga samskipti við börn og fullorðna þegar það byrjar í leikskóla. Bókin er lokaverkefni þeirra Elísabetar V. Magnúsdóttur og Hildar Baldursdóttur úr Háskóla Íslands en Leikskólasvið Reykjavíkurborgar hefur nú undirritað samning um kaup á dreifingarrétti á verkefninu. Bókin er hugsuð þannig að teknar séu myndir af barninu við þær daglegu athafnir sem tilgreindar eru í bókinni. Myndirnar eru síðan settar inn í bókina og barnið þannig látið tengja orð við athafnir.

Efni bókarinnar er sett fram með myndrænum hætti en hana má nálgast á rafrænan hátt á vefsíðu Leikskólasviðs og á Fjölmenningarvefnum. Þar er hægt að vista orðabókina beint yfir á tölvu leikskólans og nýta hana síðan eftir þörfum. Orðabókinni fylgir upplýsandi greinargerð um mikilvægi móðurmáls, íslensku sem annars máls, og gildi slíkrar orðabókar fyrir málþroska barna. Tillaga um kaup Leikskólasviðs á orðabókinni kom frá hagræðingarhópi sem kom saman fyrr á árinu og tók meðal annars fyrir kostnað vegna fjölmenningarmála þar sem lagt var til að efni sem gæti nýst öllum leikskólum yrði keypt og gert aðgengilegt á vef Leikskólasviðs.