[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Helga Snæ Sigurðsson helgisnaer@mbl.is DAGSKRÁ Þjóðleikhússins fyrir næsta leikár liggur fyrir. Tinna Gunnlaugsdóttir þjóðleikhússtjóri segir hrun íslensks efnahagslífs í fyrra hafa minnt menn á mikilvægi listarinnar og leikhússins á ólgutímum.

Eftir Helga Snæ Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

DAGSKRÁ Þjóðleikhússins fyrir næsta leikár liggur fyrir. Tinna Gunnlaugsdóttir þjóðleikhússtjóri segir hrun íslensks efnahagslífs í fyrra hafa minnt menn á mikilvægi listarinnar og leikhússins á ólgutímum.

„Þjóðleikhúsið frumsýndi Hart í bak eftir Jökul Jakobsson skömmu eftir hrunið, og skyndilega fékk þetta hálfrar aldar gamla verk um áfall í sögu þjóðar, spurningar um sekt og ábyrgð og baráttu einstaklinga við breyttar aðstæður, nýjan og óvæntan slagkraft og rataði beint að hjarta almennings. Hart í bak gekk fyrir fullu húsi allan veturinn.

Verkefnaval þessa leikárs endurspeglar að vissu leyti umrótið í samfélaginu. Við sýnum eitt magnaðasta ádeiluverk tuttugustu aldarinnar, Brennuvargana eftir Max Frisch, sígilt verk sem fjallar um breyskleika mannsins og samfélagslega ábyrgð á bráðfyndinn og magnaðan hátt. Við lítum einnig til fortíðar og leitumst við að varpa ljósi á þann hugarheim og þá hugmyndafræði sem skapar okkur sem þjóð sérstöðu,“ segir Tinna. Í þeim tilgangi verði sviðsett tvö af öndvegisverkum Halldórs Laxness, þess rithöfundar sem hefur með hvað áhrifamestum hætti fjallað um íslenska þjóð, Gerpla í leikgerð Baltasars Kormáks sem verður jólasýningin og Íslandsklukkan í nýrri leikgerð Benedikts Erlingssonar. Íslandsklukkan verður afmælissýning leikhússins, í apríl á næsta ári verða liðin 60 ár frá opnun þess.

Gerpla er hörð ofbeldis- og stríðsádeila og óvægið uppgjör við hetjudýrkun og mikilmennskuhugmyndir á öllum tímum, meðan Íslandsklukkan fjallar um þær tilvistarspurningar sem lítil þjóð stendur frammi fyrir. Í því þjóðfélagslega umróti sem við lifum nú eiga þessi stórvirki brýnt erindi við okkur og kalla á að vera skoðuð í nýju samhengi á nýjan hátt,“ segir Tinna. Jóhannes Haukur Jóhannesson og Björn Thors fara með hlutverk helstu kappanna í Gerplu , en Ingvar Sigurðsson fer með hlutverk Jóns Hreggviðssonar í Íslandsklukkunni og Snæfríði Íslandssól leikur nýútskrifuð leikkona, Lilja Nótt Þórarinsdóttir. Fyrsta frumsýning leikársins verður hins vegar nýtt leikverk eftir Brynhildi Guðjónsdóttur, Frida... viva la vida, um myndlistarkonuna mexíkósu Fridu Kahlo, og fjölskyldusöngleikurinn sígildi Oliver! verður frumsýndur í febrúar.

Hænuungar hverfa

Þrjú ný verk verða frumsýnd í Kassanum, nýtt leikrit eftir Braga Ólafsson, Hænuungarnir , sem Tinna segir bráðfyndið en það fjallar um hvarf nokkurra hænuunga úr frystikistu í sameign í fjölbýlishúsi og afleiðingar þess, í leikstjórn Stefáns Jónssonar. Þá verða sýnd tvö nýstárleg verk, annars vegar „heimilistækjasirkusinn“ Af ástum manns og hrærivélar , þar sem Ólafía Hrönn Jónsdóttir og látbragðsleikarinn Kristján Ingimarsson bregða á leik, og hins vegar Völva , þar sem nýjasta tækni í leikhúsi er nýtt til að túlka Völuspá .

Tinna segir að boðið verði upp á fjölbreytt úrval leiksýninga fyrir börn í Kúlunni, m.a. nýtt leikrit um barnabókapersónuna Fíusól og nýtt verk eftir Áslaugu Jónsdóttur, Sindra silfurfis k. Þá verði boðið upp á danssýningu og tónlistarleikhús fyrir yngstu börnin. Af þeim leikurum sem verða hvað mest áberandi í vetur má nefna Brynhildi Guðjónsdóttur, Ólaf Darra Ólafsson, Eggert Þorleifsson, Ólafíu Hrönn Jónsdóttur, Jóhannes Hauk Jóhannesson, Björn Thors, Örn Árnason, Vigdísi Hrefnu Pálsdóttur, Stefán Hall Stefánsson og Ingvar Sigurðsson. Atli Rafn Sigurðarson leikstýrir í fyrsta sinn fyrir Þjóðleikhúsið og Kristín Jóhannesdóttir, sem stýrði Utan gátta á síðasta leikári (sýningin hlaut sex Grímuverðlaun), stýrir í haust Brennuvörgunum . Selma Björnsdóttir tekst svo á við söngleikinnn Oliver! og Vigdís Jakobsdóttir leikstýrir Fíusól.

Aðspurð segist Tinna vera bjartsýn á aðsóknina í vetur, þrátt fyrir kreppuna. „Listin á alltaf erindi við okkur, ekki síst á tímum umbrota og óvissu.“ Spurð út í samkeppnina við Borgarleikhúsið svarar hún: „Þjóðleikhúsið og Borgarleikhúsið vinna að sameiginlegum markmiðum, að laða sem flesta að leikhúsunum. Að því marki eru þau samherjar og samstarfsaðilar. Vel heppnuð leikhúsferð skilar sér í löngun til að fara oftar og sjá meira.“

Starf og áherslur þjóðleikhússtjóra alltaf umdeilanlegar

Um áramótin lýkur fimm ára ráðningartíma þjóðleikhússtjóra og hefur Tinna sótt um að halda starfinu út árið 2015. Blaðamaður spurði Tinnu að því hvort hún fyndi fyrir stuðningi við þá umsókn innan Þjóðleikhússins.

„Já, ég hef orðið vör við góðan og mikinn stuðning starfsmanna, en það er sjálfsagt ekki einhlítt. Starf og áherslur þjóðleikhússtjóra hljóta alltaf að vera umdeilanlegar, það fylgir. Ég get þó fullyrt að staða þjóðleikhússins er sterk um þessar mundir, við höfum verið að auka aðsóknina og nemur sú aukning um 20% síðastliðin þrjú ár, reksturinn er í góðu jafnvægi, þrátt fyrir kreppu og niðurskurð og húsið hefur aldrei verið í betra ásigkomulagi.“

Tinna segist hafa lagt megináherslu á að auka og efla starf í þágu barna og ungmenna annars vegar og nýja, innlenda leikritun og nýsköpun hins vegar. Sérstakt barnasvið hafi verið opnað í Kúlunni og boðið upp á sýningar fyrir yngstu gesti leikhússins og leikhúsið staðið fyrir leikferðum í framhaldsskóla úti á landi og samstarfsverkefnum á landsbyggðinni á seinustu þremur árum. Þá sé ríflega helmingur verkefna á dagskrá leikhússins innlend leikrit og leikgerðir en einnig hafi sérstakur höfundasjóður, Prologos, verið stofnaður og þegar verið veitt úr honum til sjö höfunda og fimm leiksmiðjuverkefna. „Brátt fer afrakstur þessara styrkja að skila sér upp á leiksvið,“ segir Tinna að lokum.