— Morgunblaðið/Kristinn
Nú fer senn að líða að því að nemendur setjist aftur á skólabekk og sumir þeirra hefja nám í nýjum skóla í haust eða byrja í fyrsta sinn í skóla.

Nú fer senn að líða að því að nemendur setjist aftur á skólabekk og sumir þeirra hefja nám í nýjum skóla í haust eða byrja í fyrsta sinn í skóla. Framhalds- og háskólanemar fara á stúfana til að finna sér bækur og yngstu nemendurna má sjá velja vandlega skrautlega skreytt nestisbox og pennaveski. Haustið er tíminn til að grúfa sig yfir bækurnar og hafa það notalegt þess á milli.

Merkt á dagatalið

Ekki úr vegi að merkja inn mikilvægar dagsetningar á dagatal heimilisins en fyrir foreldra yngstu barnanna er vert að vita að skólasetning verður í flestöllum grunnskólum Reykjavíkur mánudaginn 24. ágúst næstkomandi. Í Landakotsskóla og Skóla Ísaks Jónssonar verður þó skólasetning fimmtudaginn 20. ágúst og í Ingunnarskóla og Suðurhlíðaskóla föstudaginn 21. ágúst. Vert er fyrir alla nemendur og foreldra að skoða heimasíðu sinna skóla þar sem finna má ýmsar dagsetningar í skólahaldi hvers skóla fyrir sig, svo sem vetrarfrí og jólafrí og foreldradaga og starfsdaga kennara á skólatíma þar sem við á.