Námshópur Helena ásamt hópi kennara sem sóttu námskeið nú í vor.
Námshópur Helena ásamt hópi kennara sem sóttu námskeið nú í vor.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Námskeið fyrir kennara þar sem þeir læra undirstöðuatriðin í útikennslu njóta sívaxandi vinsælda. Með kennslu utandyra má njóta náttúrunnar og efla tengslin á milli kennara og nemenda.

Eftir Maríu Ólafsdóttur

maria@mbl.is

Haustið framundan verður með hefðbundnu sniði með námskeiðum fyrir kennara bæði á grunn- og leikskólastigi. Þau eru ætluð til að kennararnir geti nýtt útikennslu í sinni kennslu. Annars vegar er um að ræða námskeið í aðferðafræði útikennslu, það er að segja hvernig bera eiga sig að og hverju sé náð fram með slíkri kennslu. Hins vegar eru í boði sérhæfð námskeið eins og til dæmis námskeiðið Íslenska í stöðvakennslu sem er sérstaklega ætlað íslenskukennurum og Tungumál og útikennsla sem ætlað er tungumálakennurum,“ segir Helena Óladóttir, verkefnastjóri hjá Náttúruskóla Reykjavíkur.

Notaleg jólastemmning úti við

Í haust verður í boði námskeiðið Fjörur í Reykjavík þar sem skoðað er hvernig megi nýta fjöruna sem vettvang í ýmiss konar kennslu. Þannig má til dæmis nota rýmið í stærðfræðikennslu þar sem krakkarnir fá 10 til 12 metra snúru til að vinna með þvermál og hringi sem verður mun stærra og áþreifanlegra en þegar teiknaður er hringur í stílabókina. Þá verður í nóvember haldið nýtt námskeið sem kallast Jól í útiskóla og gefur kennurum hugmyndir að verkefnum sem hægt er að vinna með úti þegar dimmt er og snjór en um leið hægt að skapa notalega stemningu. Loks styrkir námskeið um umhverfismennt kennara í því að vinna með umhverfismál, en haldin verða sérstök námskeið um loft, jörð og vatn og þá verða umhverfismál í brennidepli, hvað er að gerast þar og hver sé staða Íslands í þessum málum. Þetta námskeið kenna sérfræðingar í þessum málefnum á vegum Umhverfissviðs Reykjavíkur.

Kennslustundir fara fram í Grasagarðinum, fjörum og við Reynisvatn en líka á skólalóðum enda segir Helena að í hinu manngerða umhverfi sé margt ágætt til þess að vinna með. Þá er Náttúruskólinn einnig í samstarfi við skóla þar sem kennarar óska eftir aðstoð við að innleiða útikennslu.

Út fyrir rammann

„Mikið af þessum námskeiðum verður til þess að kveikja áhuga kennara á útikennslu og margir koma ítrekað á námskeið til okkar. Þarna hittast líka kennarar sem eru að vinna á svipuðum vettvangi og geta miðlað reynslu sinni. Það þarf kjark til að stíga út og getur verið erfitt ef maður veit ekki alveg hvernig maður á að haga sér við slíka kennslu. Um leið og fólk þorir að stíga þetta skref er gaman að sjá hvað samskipti nemenda og kennara verða af allt öðrum toga,“ segir Helena.

Samstarfsverkefni

Skólinn er samstarfsverkefni umhverfis- og samgöngu-, mennta- og leikskólasviðs Reykjavíkur auk þess sem að rekstrinum koma Landvernd og Skógræktarfélag Reykjavíkur. Reykjavíkurborg greiðir niður námskeiðsgjald sem er aðeins 2.000 kr .en ráðgjafarþjónusta sem sinnt er í skólum er ókeypis. Hvert námskeið er tveggja tíma langt og yfirleitt unnið með 12 til 15 verkefni á hverju námskeiði en samstarf við skóla er á þeim forsendum sem hentar best hverju sinni.