Heitt í hamsi Þóra er orkumikil og blóðheit.
Heitt í hamsi Þóra er orkumikil og blóðheit. — Morgunblaðið/Dagur Gunnarsson
Aðalsmaður vikunnar gerði heimildarmyndina Stelpurnar okkar, um íslenska kvennalandsliðið í fótbolta, sem er frumsýnd í dag. Þóra Tómasdóttir æfði fótbolta með norsku strákaliði en fór aldrei inná í leik.
Hvers vegna heimildarmynd um kvennafótbolta? Stelpurnar í kvennalandsliðinu eru eins og mér finnst að stelpur eigi að vera. Þær eru kappsamar, metnaðarfullar, gera það sem þær hafa áhuga á óháð því hvað þykir stelpum sæmandi. Svo eru þær auðvitað fótboltakonur á heimsmælikvarða og á bak við það er ekki bara glamúr. Það er puð og erfiði.

Hvar læturðu helst til þín taka á heimilinu? Ég læt til mín taka á flestum stöðum en nenni alls ekki þvottinum. Sterkust er ég við eldavélina.

Getur þú lýst þér í 5-10 orðum? Orkumikil, fljótfær, hvatvís, blóðheit, hugmyndarík og úrræðagóð. Kannski örlítið skapstór.

Eigum við í U19 ekki að fá fálkaorðuna rétt eins og hinir silfurdrengirnir? (Spyr síðasti aðall, Ólafur Guðmundsson í handboltalandsliði U19 sem vann silfur á heimsmeistaramótinu í Túnis) Það er alls ekki út í hött en sem betur fer er margt merkilegra í lífinu en skrautfjöður frá forsetaembættinu.

Geta stelpur eitthvað í fótbolta? Geta? Mínar fótboltastelpur eru lífshættulegar á vellinum.

Ert þú góð í fótbolta? Því miður. Ég æfði eitt sumar með norsku strákaliði. Fékk aldrei að koma inná í leik.

Hver er tilgangur lífsins? Að ala upp hugrökk börn.

Hvaða bók ertu að lesa? Síðast las ég námbækur en hef ekki haft eirð í mér til að lesa eitthvað af viti á síðustu vikum vegna anna.

Ferð þú til Finnlands á Evrópumótið? Ef ég væri ekki búin með þolinmæðiskvótann í vinnunni minni væri ég að pakka niður.

Áttu þér uppáhalds fótboltamanneskju? Já, margar. Þær eru allar í íslenska kvennalandsliðinu.

Býrðu yfir leyndum hæfileika? Já, ég er mjög vanmetin viðskiptajöfur.

Hvaða áhugamál áttu þér? Mörg. Kvikmyndir, ljósmyndun, skíði og svo fæ ég a.m.k. eina viðskiptahugmynd á dag sem ég eyði miklum tíma í að hugsa um.

Hver er þinn helsti kostur? Ég hef kjark og kraft.

En ókostur? Mér verður of heitt í hamsi. Mætti tileinka mér meiri yfirvegun.

Hvar sérðu þig eftir 10 ár? Ég sé mig vinna að heimildarmyndagerð, hafa sótt mér meiri menntun í útlöndum og umvafin hamingjusömum börnum.

Hver er skemmtilegastur í Kastljósinu? Ég myndi segja að Helgi Seljan væri jafn drepfyndinn og hann er hryllilegur.

Hefurðu fundið fyrir kreppunni? Ég leyfi mér ekki að kvarta á meðan ég er í mikilli vinnu og námi. Það eru ekki allir jafn heppnir í dag.

Ertu með spurningu handa næsta viðmælanda ? Verða Stelpurnar okkar ekki örugglega Evrópumeistarar?