Fjölbrautaskóli Suðurnesja Skemmtilegur skóli sem er í stöðugum vexti og stækkar ört en komst loksins undir eitt þak árið 1992.
Fjölbrautaskóli Suðurnesja Skemmtilegur skóli sem er í stöðugum vexti og stækkar ört en komst loksins undir eitt þak árið 1992. — Morgunblaðið/Þorkell
Á Suðurnesjum er að finna Fjölbrautaskóla Suðurnesja en stefna hans er að vera einn af bestu framhaldsskólum landsins og bjóða menntun í hæsta gæðaflokki auk þess bjóða Suðurnesjamönnum upp á fjölbreytt nám í heimabyggð í samræmi við áhuga og getu.

Á Suðurnesjum er að finna Fjölbrautaskóla Suðurnesja en stefna hans er að vera einn af bestu framhaldsskólum landsins og bjóða menntun í hæsta gæðaflokki auk þess bjóða Suðurnesjamönnum upp á fjölbreytt nám í heimabyggð í samræmi við áhuga og getu.

Fjölbrautaskóli Suðurnesja hefur starfað síðan haustið 1976. Skólinn var stofnaður í samstarfi ríkisins og allra sveitarfélaganna á Suðurnesjum. Þar sameinuðust Iðnskóli Keflavíkur og framhaldsdeildin við Gagnfræðaskólann í Keflavík. Allt frá stofnun skólans hefur hann verið í stöðugum vexti og sprengt utan af sér húsnæðið hvað eftir annað. Haustið 1992 komst starfsemin loks öll undir eitt þak og skólinn er nú í um 9000 m 2 húsnæði en nýjasti hluti þess var tekinn í notkun haustið 2004.

Starfsbraut fyrir fatlaða nemendur

Fjölbrautaskóli Suðurnesja er framhaldsskóli sem býður fjölbreytt bóklegt og verklegt nám og er til að mynda eini framhaldsskólinn á landinu sem býður kennslu í netagerð. Skólinn er áfangaskóli en í því felst að námsefni í einstökum greinum er skipt niður í afmarkaða áfanga sem kenndir eru í eina námsönn og lýkur með prófi eða öðru námsmati í annarlok. Nemendur Fjölbrautaskóla Suðurnesja geta valið um bóklegt nám sem lýkur með stúdentsprófi, fjölbreytt iðnnám og styttri starfsnámsbrautir. Í skólanum er einnig í boði almenn braut – fornám fyrir nemendur sem ekki hafa lokið grunnskóla með fullnægjandi einkunnum til að hefja nám á öðrum brautum. Þá rekur skólinn starfsbraut fyrir fatlaða nemendur. Undanfarin ár hafa um 1000 nemendur stundað nám í skólanum auk 150-200 nemenda í kvöldskóla. Þá hafa 150-200 nemendur grunnskólanna á svæðinu stundað nám í einstökum áföngum.