Lektor og barnabókahöfundur Brynhildur hefur hlotið margvísleg verðlaun fyrir bækur sínar.
Lektor og barnabókahöfundur Brynhildur hefur hlotið margvísleg verðlaun fyrir bækur sínar. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
Áhuga barna og unglinga á bóklestri má auka með samfélagslegu átaki þar sem skólar og heimili leggjast á eitt. Brynhildur Þórarinsdóttir, lektor í barnabókmenntum við Háskólann á Akureyri, heldur námskeið fyrir kennara þar sem hún leiðbeinir þeim hvernig efla megi lestraráhuga barna.

Eftir Maríu Ólafsdóttur

maria@mbl.is

Það er gríðarlega mikilvægt að hvetja krakka til að lesa enda eru til ýmsar rannsóknir sem sýna minnkandi lestraráhuga krakka, ekki bara á Íslandi heldur líka víða í kringum okkur. Lestraráhugi íslenskra barna og unglinga er þó miklu minni en í nágrannalöndunum. Í Finnlandi, sem við berum okkur gjarnan saman við, er áhugi á lestri sem tómstundagaman til að mynda meiri en hjá okkur. Það hefur sýnt sig að bein tengsl eru á milli áhuga á bóklestri og lesskilnings, sem er svo aftur undirstaða námsárangurs þannig að til að bæta árangur okkar krakka er mikilvægt að auka áhuga þeirra á lestri,“ segir Brynhildur sem sjálf hefur skrifað barnabækur og endurritanir fyrir börn og hlotið fyrir þær margvísleg verðlaun, meðal annars Norrænu barnabókaverðlaunin.

Ótvírætt forvarnagildi

Hún segir margt koma í staðinn fyrir lestur og áhugamál hafi breyst en einnig sé ekki nógu mikill áróður fyrir bóklestri í tómstundastarfi barna. Bókalestur hafi fengið á sig dálítinn nördastimpil og því mikilvægt að gera hann dálítið töff og spennandi enda hafi bóklestur ótvírætt forvarnagildi. Í Danmörku hafi til dæmis verið unnið að því að auka bóklestur með samfélagslegu átaki sem átti að ljúka árið 2007 en var framlengt um nokkur ár. Þar var ráðist markvisst í að skoða allt samfélagið, sveitarfélögin og skólana til að stuðla að lestri krakka. Einnig stóðu almenningsbókasöfnin fyrir spennandi spurningakeppni þar sem valið var í lið sem krakkarnir kepptust við að komast í og þannig skapaðar jákvæðar fyrirmyndir tengdar lestri. Brynhildur segir slíkt átak þurfa hér heima og þá verði heimilin að vera með enda séu skýr tengsl á milli þess að lesið sé heima fyrir börn á leikskólaaldri og þess að þau öðlist sjálf áhuga á bóklestri síðar.

Börnin vilja spjalla

Námskeiðið er í raun sjálfstætt framhaldsnámskeið af námskeiði sem Brynhildur hélt fyrir starfandi kennara um mikilvægi lestraráhuga og leiðir til að auka hann. Á þessu námskeiði verður hins vegar farið í sögu íslenskra barnabóka og rætt um hvað einkenni þær. „Í Danmörku hefur verið kannað hvað virkilegir lestrarhestar vilja og það er að fá alvöru samtöl við fullorðið fólk um hvað bækurnar séu þannig að börnin geti rætt við það um persónur og söguþráð. Því vil ég að við komumst út úr þeirri hugsun að rétta barni bók og segja: „Lestu, þetta er örugglega skemmtilegt.“ Ég ætla að kynna kennurunum nýjar og nýlegar barnabækur svo þeir séu færari í að ná inn á áhugasvið barnanna. Einnig mun ég skoða hvernig samfélagið speglast í barnabókum og hvernig kennarar geta notað þær til að ræða ýmis mál. Það er mikil list að velja bækur sem henta í skólastarfi en mikilvægt er að persónurnar séu vel skapaðar og gefi jákvæða mynd af báðum kynjum. Þá mætti vera meira um venjulegar barnabækur í skólum enda má nýta þær miklu meira en gert er í kennslu, til dæmis í lífsleikni og samfélagsfræði,“ segir Brynhildur sem kennir grunnskóla- og leikskólakennaranemum við Háskólann á Akureyri námskeið í barnabókmenntum auk þess að kenna kennslufræði í íslensku. Námskeiðið, sem haldið verður 30. september, ber heitið Fíasól og fleiri snillingar og er á vegum Síendurmenntunar Háskólans á Akureyri.