Rósa Aðalheiður Georgsdóttir fæddist á Patreksfirði 26. febrúar 1919. Hún lést á sjúkradeild Hrafnistu í Reykjavík, fimmtudaginn 6. ágúst síðastliðinn. Foreldrar hennar voru hjónin Georg Grundfjörð Jónasson frá Hömrum í Grundarfirði, f. 7. ágúst 1884, d. 4. júní 1962 og Guðfinna Bjarnadóttir frá Haga í Staðarsveit, f. 31. maí 1900, d. 24. október 1984. Þau eignuðust 14 börn og var Rósa Aðalheiður þeirra næstelst. Fyrir átti Georg eina dóttur.

Rósa Aðalheiður eignaðist sex börn, fimm dætur og einn son, þau Sigríði Guðmundsdóttur, f. 13. apríl 1939, Kristínu Kjartansdóttur, f. 5. ágúst 1945, d. 3. maí 1947, Kristínu Björgu Kjartansdóttur, f. 6. júlí 1948, Jón Kjartansson, f. 25. september 1949, d. 5. júlí 2000, Ástríði Pétursdóttur Thorarensen, f. 31. júlí 1954 og Önnu Maríu Pétursdóttur, f. 19. janúar 1962. Afkomendur Rósu Aðalheiðar eru nú 47.

Rósa Aðaheiður gekk í Kvennaskólann í Reykjavík og lærði þar m.a. fatasaum. Sem ung kona vann hún við sauma og var mikil hagleikskona. Seinni hluta ævinnar var hún heimavinnandi húsmóðir ásamt því að taka þátt í ýmsum góðgerðarmálum. Rósa Aðalheiður studdi ýmiss líknarfélög og var ávallt mjög umhugað um þá sem minna mega sín. Hún stofnaði m.a. Kærleikssjóð Sogns árið 2004.

Rósa Aðaheiður verður jarðsungin frá Áskirkju í dag, föstudaginn 14. ágúst, og hefst athöfnin kl. 15.

mbl.is/minningar

Hún mamma okkar var skemmtilegasta manneskja sem við þekktum og hún gat líka verið erfiðasta manneskja sem við þekktum. Einhvern veginn var hún mamma þetta allt. Það skemmtilegasta sem við systurnar og börnin okkar gerðum var að fara með mömmu í ferðir um landið. Hún elskaði landið sitt og naut þess að fara í stuttar ferðir með teppi og nesti, finna laut nálægt læk, umkringda birkihríslum, sitja þar og teyga að sér gróðurilminn og hlusta á söng fuglanna. Við skemmtum okkur konunglega í þessum ferðum og hún naut þess að lýsa því sem fyrir augu bar og í bílnum áttum við margar og góðar söngstundir því mamma var mikil söngmanneskja. Við systurnar höfðum það fyrir reglu seinni árin að fara með mömmu einu sinni á sumri að Hlíð í Grafningi þar sem hún ólst upp og oftar en ekki fór eitthvert ömmubarnanna með. Mamma elskaði sveitina sína og naut þess að rifja upp uppvaxtarárin. Eitt það besta sem hún vissi var að leggjast í lyngið. Þá sagði hún gjarnan „komiði stelpur og finnið kraftinn frá jörðinni“ og hló dátt eins og henni einni var lagið. Mamma var af þeirri kynslóð Íslendinga sem mundi tímanna tvenna í baráttu íslensku þjóðarinnar. Hún var sjálf alin upp í torfbæ og talaði oft um að sennilega væri hún ein af fáum eftirlifandi Íslendingum sem kynni að baka og elda á hlóðum.

Hún mamma var með heiðarlegustu manneskjum sem við vissum um, kom alltaf til dyranna eins og hún var klædd og ávallt reiðubúin að ráðleggja og hjálpa ef eitthvað bjátaði á. Hún fann alltaf eitthvað til að þakka og gleðjast yfir og var hafsjór af þekkingu um menn og málefni. Mamma hafði ráð undir rifi hverju, gafst ekki upp og var afar fylgin sér. Eitt af því sem við lærðum af henni var að maður gefst ekki upp þó að á móti blási og þó að ein leið lokist má ávallt finna aðra og þá jafnvel betri. Hún naut þess að ræða ættartengsl við þá sem hún hitti og hafði afar ákveðnar skoðanir á flestu. Mamma var eina manneskjan sem við vitum um sem gat bæði grátið og talað í einu og hún mamma grét oft, hún átti um svo margt sárt að binda. Ævin hennar hafði ekki verið auðveld og mamma kunni að gráta, hlæja og segja frá, allt í senn.

Við systurnar og fjölskyldur okkar eigum eftir að sakna hennar mömmu eða ömmu Rósu eins og börnin okkar kölluðu hana, en söknuður okkar er ljúfsár því mamma var orðin þreytt á sál og líkama og vildi fara að hitta frelsara sinn. Skarð er höggvið í samverustundir fjölskyldunnar, lautarferðir og jólaboð og við kveðjum hana með þökk fyrir allt það góða sem hún skildi eftir hjá okkur.

Guð blessi minningu hennar.

Ásta, Anna María og fjölskyldur.