Þroskandi Tímabundið málanám ytra heillar fólk á öllum aldri en þýska og franska sækja nú aftur á í vinsældum.
Þroskandi Tímabundið málanám ytra heillar fólk á öllum aldri en þýska og franska sækja nú aftur á í vinsældum. — Morgunblaðið/Jakob Fannar
Í gegnum Lingo-Málamiðlun er nú hægt að sækja um fjölbreytt hönnunarnám ytra. Þar er einnig lögð áhersla á að þjónusta fólk á vinnumarkaði sem vill sækja sérhæfð tungumálanámskeið erlendis.

Eftir Maríu Ólafsdóttur

maria@mbl.is

Ég hef lengi verið viðloðandi það að leiðbeina fólki sem sótt hefur um erlenda hönnunar- og listaskóla. Út frá því útvegaði ég mér umboð fyrir IED á Íslandi sem stendur fyrir Istituto Europeo di Design og er einn stærsti hönnunarskóli Evrópu. Starfsstöðvar skólans eru í Flórens, Milanó, Róm, Tórino og Feneyjum á Ítalíu og í Barcelona og Madrid á Spáni og þar er hægt að læra flest allt á sviði hönnunar, til að mynda tískuhönnun, margmiðlun og vöruhönnun,“ segir Arnþrúður Jónsdóttir hjá Lingo-Málamiðlun.

Gengistryggð námsgjöld

Grunnmenntun í hönnun er inngönguskilyrði en nemendur geta annaðhvort sótt um þriggja ára nám sem hefst að hausti eða lokið þriggja anna diplómanámi á grunn háskólastigi sem hefst í janúar. Vilji nemendur síðan halda áfram námi fæst diplómanámið metið inn í fullt nám. Einnig er Lingo-Málamiðlun með umboð fyrir skólana University of the Arts í London sem samanstanda af sex skólum sem taldir eru einhverjir bestu hönnunar- og listaskólar í Bretlandi eins og Central Saint Martins og London College of Fashion. Síðastliðin ár hafa á milli 20-40 manns á ári farið héðan í þessa skóla. Í ljósi efnahagserfiðleika hefur IED nú ákveðið að gengistryggja námsgjöld við skólann fyrir skólaárið 2009 til 2010 og binda evruna við íslensku krónuna á genginu 145 og er námið lánshæft samkvæmt úthlutunarreglum LÍN.

Tungumálið fínpússað

Arnþrúður segir almenn tungumálnámskeið í frönsku, þýsku, ensku, spænsku og ítölsku njóta vinsælda hjá fólki á öllum aldri. Fyrirtækið leggur upp úr því að bjóða sérvalda skóla sem veita persónulega þjónustu og þar sem þess er gætt að ekki séu of margir sem tali sama tungumál í einu. Hún segir ungt fólk gjarnan vilja auka kunnáttu sína í sérhæfðri ensku áður en það hefur háskólanám, til dæmis í lögfræði eða viðskiptafræði og eins sé algengt að ungt fólk taki sér árs hlé eftir menntaskóla og noti þá jafnvel tímann til að dvelja í tveimur og jafnvel þremur löndum til að bæta tungumálakunnáttu sína. Þá er stór hluti viðskiptahópsins fólk sem hefur verið í skóla fyrir 15 til 20 árum og vill uppfæra og fínpússa enskuna hjá sér.

Franska og þýska sækja á

„Spænskan var orðin langvinsælasta tungumálið en þýskan og franskan sækja nú á sem mér finnst gott. Það er allur gangur á því hvað fólk fer á löng námskeið en við leggjum áherslu á að fólk fari á námskeið þar sem það nær góðum árangri á skömmum tíma. Sumir vilja fara á málanámskeið til að bæta stöðu sína á vinnumarkaði á meðan aðrir vilja tvinna saman áhugamál eins og matargerð við námskeiðin og við reynum að mæta þörfum allra. Það kom dálítið hik á fólk síðastliðið haust en það hefur breyst aftur og fólk styttir frekar dvölina heldur en að hætta við að fara. Þá hafa sumir skólar líka boðið Íslendingum allt að helmingsafslátt af námskeiðum. Að fara á málanámskeið er eins og að hlaða batteríin fyrir fólk á öllum aldri þar sem það bæði þjálfast og lærir tungumál auk þess að kynnast fullt af fólki,“ segir Arnþrúður.