Skipulag borgarumhverfis Það er mikil þörf á frekar menntun í skipulagsfræðum hér á landi og Landbúnaðarháskóli Íslands mun bjóða upp á mjög áhugavert MS-nám í skipulagsfræði í haust.
Skipulag borgarumhverfis Það er mikil þörf á frekar menntun í skipulagsfræðum hér á landi og Landbúnaðarháskóli Íslands mun bjóða upp á mjög áhugavert MS-nám í skipulagsfræði í haust. — Morgunblaðið/Heiddi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það eru einungis um 20 starfandi skipulagsfræðingar á landinu í dag og því mikil þörf á fleirum. Landbúnaðarháskóli Íslands býður nú upp á MS-nám í skipulagsfræði og nemendur með bæði BA- og BS-próf geta sótt um námið.

Eftir Svanhvíti Ljósbjörgu

svanhvit@mbl.is

Það eru margir sem hafa mjög ákveðnar skoðanir á skipulagi á Íslandi og kannski einna helst skorti á því. Við Landbúnaðarháskóla Íslands verður nú boðið upp á MS-nám í skipulagsfræði og dr. Sigríður Kristjánsdóttir lektor segir mikla þörf á þessu námi. „Við þurfum ekki annað en að líta út um gluggann til að sjá að það er þörf á þessu námi. Það er oft mikil umræða um þessi málefni og það vantar fólk með menntun í skipulagsfræði. Það er því verið að bregðast við þessari umræðu með því að reyna að ná þessari skipulagsmenningu upp á hærra plan.“

Líka kennt í endurmenntun

Sigríður talar um að mögulegt sé að vera með BS- eða BA-próf til að fá inngöngu í námið og bakgrunnur nemenda geti því verið ólíkur. „Námið er hugsað þannig að nemandi geti komið úr hvaða fagi sem er en svo erum við með ólíka kúrsa á fyrsta árinu fyrir fólk sem vantar mögulega einhvern grunn. Námið er líka kennt í endurmenntun því við viljum líka gefa þeim sem hafa lært eitthvað annað og eru kannski búnir að vinna við þetta í 20 ár kost á því að koma í endurmenntun og ná sér í þessi réttindi. Skipulagsfræði í sjálfu sér er sérstök faggrein en hún kemur inn á svo margar aðrar greinar af því hún dregur úr þeim upplýsingar. Í skipulagsfræði er nauðsynlegt að greina landið, skipuleggja það og greina byggðina sem á að vinna í og hanna inn í svo það eru því alls kyns greinar sem tengjast fræðunum.“

Fáir skipulagsfræðingar

Sigríður talar um að það megi sjá á skipulagi borga á Íslandi að það hefur gleymst að hugsa um íbúana. „Við erum alltaf að redda einhverjum húsum en við hugsum ekkert um rýmin á milli húsanna. Sjálf er ég doktor í borgarformfræði en þá er einmitt farið inn í byggðina og byggðarmynstrið greint. Það er ákveðin aðferðafræði notuð til greina umhverfið sem er svo notað sem ákveðið innlegg í hönnunina, til að hanna byggðina inn í hverfið í staðinn fyrir að skella bara turni niður einhvers staðar,“ segir Sigríður og segir að henni svíði stundum í augun að sjá hvað er gert. „Það sem mér finnst fyrst og fremst vanta er þessi menntun því það eru bara um 20 skipulagsfræðingar starfandi á Íslandi í dag og því hafa ýmsar aðrar stéttir komið inn á þennan vettvang.“

Áhrifamikið íbúalýðræði

Sigríður segir það þó vera jákvætt að íbúalýðræði verði sífellt öflugra. „Markaðshyggjumenn segja að markaðurinn leysi öll vandamál en það eru samt ákveðnir markaðsbrestir, til dæmis það að hugsa um að allir fái aðgang að grænum svæðum og að allir hafi aðgang að hreinu lofti. Það þarf að hugsa um gæðin í umhverfinu fyrir fólk og fyrst og fremst að tryggja þau. Íbúðalýðræði er alltaf að verða áhrifameira og skipulagðara en það sýnir að það vantar ennþá að taka tillit til fólksins sem vill fá að koma að og hafa áhrif á sín hverfi. Í nánast hverju hverfi á höfuðborgarsvæðinu eru stofnuð íbúasamtök sem er bara af hinu góða en samt sem áður þarf það að komast betur inn í kerfið. Maður getur velt fyrir sér hvort það þurfi að breyta einhverjum lögum eða reglugerðum eða bara hreinlega stofna umboðsmann íbúa. Ég held að með því að auka menntun og auka þekkinguna þá komi meiri kröfur og þá lagist þetta.“