Kröfuharður skólastjóri Ingibjörgu Jósefsdóttur, skólastjóra í Hagaskóla, er mjög annt um nemendur sína og vill að þeir ögri sjálfum sér.
Kröfuharður skólastjóri Ingibjörgu Jósefsdóttur, skólastjóra í Hagaskóla, er mjög annt um nemendur sína og vill að þeir ögri sjálfum sér. — Morgunblaðið/Jakob Fannar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sesselja Ingibjörg Jósefsdóttir heillaðist af kennarastarfinu þegar dóttir hennar hóf nám í grunnskóla. Í dag er hún skólastjóri Hagaskóla og segir samskiptin við starfsfólk og nemendur það skemmtilegasta við starfið.

Eftir Maríu Ólafsdóttur

maria@mbl.is

Þegar dóttir mín hóf nám í fyrsta bekk í Breiðagerðisskóla var Sigríður Knútsdóttir umsjónarkennarinn hennar og hún bauð foreldra velkomna í heimsókn á skólatíma. Ég fór nokkrum sinnum í heimsókn og varð svo heilluð af starfi kennarans að ég hóf nám við Kennaraháskólann árið eftir. Þó áhuginn hafi kviknað í fyrsta bekk hef ég eingöngu kennt á unglingastigi ef frá er talin æfingakennslan. Að loknu námi fór ég að kenna við Réttarholtsskóla og kenndi þar meðal annars við sérdeildina sem var mjög góð reynsla. Þar starfaði ég sem aðstoðarskólastjóri frá 2002 til 2007 þegar ég hélt til starfa við Hagaskóla,“ segir Ingibjörg sem var fastráðin sem skólastjóri skólans nú í vor. Sjálf er Ingibjörg fædd og uppalin í Hlíðunum þar sem hún gekk hina hefðbundnu skólagöngu í Ísaksskóla, Hlíðaskóla og loks Menntaskólann við Hamrahlíð.

Leiðtogi sem læs er á samskipti

„Hagaskóli er safnskóli á unglingastigi og þar stunda um 500 nemendur nám í 8. til 10. bekk en starfsmenn eru um 60. Starf skólastjórans fjölbreytt, hann ber ábyrgð á rekstrinum og að farið sé eftir lögum og reglugerðum. Þá er skólastjórinn einnig faglegur leiðtogi og fyrirmynd sem þarf að hlusta á raddir skólasamfélagsins og halda utan um fólkið sitt. Verkefni starfsfólks í grunnskólum er mjög viðamikið því við erum að móta ungt fólk til að fara út í samfélag sem við vitum ekki nákvæmlega hvernig mun líta út eftir nokkur ár. Við þurfum að ráða í hvað það er sem skiptir máli, skapandi hugsun og vinnubrögð, frumkvæði og kraftur. Þá skiptir miklu máli að vera læs á mannleg samskipti og geta átt í samskiptum við ólíka aðila með ólíkan bakgrunn og uppruna. Þar meðal annars liggur styrkur minn,“ segir Ingibjörg.

Skólastjórinn við kennslu

Í gegnum tíðina hafa margir óttast að vera sendir til skólastjórans fyrir óknytti enda má segja að staðalímynd skólastjóra sé af ógnandi og ströngum einstaklingi sem hrellir nemendur upp úr skónum. Þetta hefur þó heldur breyst í tímans rás. „Þegar ég var í Hlíðaskóla var Ásgeir Guðmundsson skólastjóri. Ásgeir var mikið á ferðinni um skólann og ég bar mikla virðingu fyrir honum.

Ég lít þannig á að skólastjórinn eigi ekki að vera ógnandi heldur eigum við öll að bera virðingu fyrir hvert öðru hvort sem er um að ræða nemendur eða starfsmenn. Það skiptir miklu máli að vera sýnilegur og í vetur ætlum ég og Ómar Örn aðstoðarskólastjóri að taka upp þá nýjung að kenna öllum nemendum í áttunda bekk nokkrar kennslustundir í haust og aftur eftir áramótin. Þannig náum við að kynnast öllum nemendum strax og þeir okkur. Það er mismunandi hvernig maður kynnist nemendum og hversu fljótt. Sumir koma sér mjög fljótt í þá aðstöðu að vera sendir til skólastjóra á meðan öðrum kynnist maður hægt og hljótt t.d. í gegnum félagslífið en ég hef lagt áherslu á að fylgja nemendum eftir þegar þeir eru að koma fram á vegum skólans,“ segir Ingibjörg.

Að gera ögn betur

Ingibjörg segir skólaárið leggjast vel í sig en á tímum eins og nú þar sem ástand er víða erfitt á heimilum sé mjög mikilvægt að skapa börnunum öruggt skjól í skólanum þar sem þeim líði vel. Hún gerir töluverðar kröfur til nemenda og reynir að innræta þeim að gera alltaf ögn betur en það sem er þeim auðvelt til að þeir ögri sér svolítið. Sjálf notar hún gildin virðing, væntumþykja og vellíðan í daglegu starfi og bæti gjarnan við jákvæðar væntingar sem felur í sér að búast við að allir séu að gera sitt besta. Á komandi skólaári verður áframhaldandi áhersla á námsmat líkt og á síðasta ári auk þess sem hugað verður að fjölbreyttari kennsluaðferðum. Í haust mun einnig hefjast samvinna þvert á árganga sem snýst um nemendur og þeirra þarfir og aukna samvinnu kennara meðal annars að búa til heppilegar aðstæður fyrir þróunarverkefni og byggja upp traust og jákvæð viðhorf. Einnig verður nýju verkefni hrundið af stað sem kallast vinátta, virðing og jafnrétti. „Það er mjög gaman að sjá hvað krakkarnir þroskast mikið á þessum árum og hér í skólanum hefur skapast einstaklega gott og traust samfélag með afbragðs starfsfólki. Við höfum líka lagt áherslu á þátttöku foreldra í skólastafi en til dæmis lögðu 50 foreldrar okkur lið við að halda árshátíð í skólanum og þannig hefur okkur tekist að láta niðurskurð innan skólans ekki bitna á nemendunum. Í Hagaskóla eru mjög góðir starfsmenn og frábært fólk með mér í stjórnun. Það er lykilatriði að vinna með góðu fólki og þar er ég afskaplega heppin. Ég get deilt út verkefnum og verið viss um að þau verða leyst vel,“ segir Ingibjörg sem nú er að hefja sitt þriðja starfsár, jákvæð, bjartsýn og áhugasöm og ætlar sér að ná afbragðsárangri.