Hárlaus Hægt er að spegla sig í bringunni á leikaranum Ryan Reynolds.
Hárlaus Hægt er að spegla sig í bringunni á leikaranum Ryan Reynolds.
ORÐATILTÆKIÐ að vera mjúkur maður hefur öðlast nýja merkingu undanfarin misseri því nú er vinsælt að vera mjúkur jafnt að innan sem utan. Karlmenn á öllum aldri flykkjast bókstaflega á snyrtistofur til að láta fjarlægja líkamshár.

ORÐATILTÆKIÐ að vera mjúkur maður hefur öðlast nýja merkingu undanfarin misseri því nú er vinsælt að vera mjúkur jafnt að innan sem utan. Karlmenn á öllum aldri flykkjast bókstaflega á snyrtistofur til að láta fjarlægja líkamshár. Hárin sem körlum finnast óæskileg eru yfirleitt á bringu, baki, í kringum og á kynfærum og jafnvel rassi, þ.e. hið margumtalaða brasilíska vax. Vaxmeðferðirnar eru sérstaklega vinsælar á sumrin enda vilja þá margir geta fækkað fötum og sýnt hárlausan (og stundum stæltan) líkamann.

Fræga fólkið hefur væntanlega gefið tóninn, ekki stingandi strá sést á bringu flestra leikara, sérstaklega þeirra yngri, svo halda mætti að stökkbreyting hefði átt sér stað milli kynslóða. En skýringin felst annars vegar í tískustraumum og hins vegar í því að háreyðingarmeðferðir eru orðnar mun aðgengilegri og þægilegri.

Frábært að fjarlægja

„Hárvöxtur hefur í gegnum tíðina farið fyrir brjóstið á mörgum karlmönnum en nú finnst þeim frábært að geta fjarlægt hárin með þeim árangursríku meðferðum sem í boði eru,“ segir Erna María Eiríksdóttir, snyrtimeistari á snyrtistofunni Verði þinn vilji.

Vax á baki er langvinsælasta meðferðin en sífellt fleiri kjósa hárlausa bringu.

Erna María segir vaxið ekki lengur feimnismál hjá körlum. Þeir fari sumir í fyrstu meðferðina þegar verið er að steggja þá og halda svo áfram að koma reglulega eftir það.

„Þeir koma sjálfir, það eru ekki kærustur eða eiginkonur sem senda þá,“ segir Erna María. „Þeir eru alls ekkert feimnir við að koma. Háreyðingin er orðin hluti af þeirra líkamsumhirðu og ekkert til að skammast sín fyrir.“

Fyrsta vaxmeðferðin getur verið nokkuð sársaukafull. Annað skiptið er strax mun þægilegra. Einnig er boðið upp á súkkulaðivax sem er ekki eins sársaukamikið og venjulegt vax. Súkkulaðið er helst notað á viðkvæmari svæði, eins og í kringum kynfæri. „En við notum súkkulaðivaxið mikið á karlmenn, sérstaklega þá sem eru að koma í fyrsta skipti,“ segir Erna María. Hún telur að tilkoma súkkulaðivaxins hafi snaraukið áhuga karlmanna á háreyðingu – einmitt vegna þess að sársaukinn er minni.

*Til að halda líkamanum hárlausum er gott að fara í vaxmeðferð á 4-6 vikna fresti. Margir kjósa þó að fara mun sjaldnar í meðferð.

*Vaxmeðferð á baki eða bringu tekur um 15-20 mínútur og kostar á bilinu 2.500-5.500 kr. *Brasilíska vaxið tekur um 30 mínútur og kostar á bilinu 5.000-8.700 kr.

www.vilji.is

Vax eða rakstur?

*Vaxmeðferð endist mun betur en rakstur því hárin eru tekin með rótum.

*Ekki þykir sérstaklega sexí þegar hárbroddar eftir rakstur fara að sjást á bringunni eða baki.

*Meiri kláði og jafnvel kláðabólur geta fylgt rakstrinum.

*Vaxmeðferð hægir á hárvexti og hárin sem vaxa aftur eru mýkri en eftir rakstur.