George Burley
George Burley
SKOSKA landsliðið og ekki síst landsliðsþjálfarinn George Burley fá harða gagnrýni eftir skellinn gegn Norðmönnum í fyrrakvöld.

Skotar sóttu Norðmenn heim til Osló í undankeppni HM þar sem þeir töpuðu, 4:0, en þjóðirnar leika í sama riðli og Íslendingar.

,,HM-draumur Skota er í tætlum eftir eina mestu niðurlægingu í sögunni,“ segir í umfjöllun Daily Mail . ,,Burley er undir miklum þrýstingi og það skiljanlega því hann hefur aðeins náð að stýra liðinu til sigurs í tveimur leikjum af níu og þeir sigrar komu báðir gegn Íslandi,“ segir í Daily Mail .

,,Burley varð fyrir niðurlægingu í Osló,“ er fyrirsögnin í The Scotsman en blaðið kallar eftir því að hinn 39 ára gamli miðvörður, David Weir, verði kallaður inn í tvo síðustu leiki Skota í riðlinum.

,,Það voru ekki háar og langar sendingar lærisveina Egils Olsen sem braut skoska liðið niður heldur langur armur laganna. Tvö gul spjöld á tveimur mínútum sem Gary Caldwell fékk var áfall sem liðið réði ekki við,“ segir í Guardian .

,,Svarti herinn sem í eru dyggustu stuðningsmenn skoska landsliðsins voru æfir eftir leikinn og þeir kröfðust að landsliðsþjálfarinn George Burley yrði látinn taka pokann sinn en ósigurinn í fyrrakvöld er sá versti hjá Skotum í sex ár eða frá því þeir töpuðu, 6:0, fyrir Hollendingum.

Skotar, Makedóníumenn og Norðmenn berjast um annað sætið í riðlinum. Skotar og Makedóníumenn hafa 7 stig og Norðmenn 6 en öll eiga liðin eftir tvo leiki. Skotar eiga heimaleiki gegn Makedóníu og Hollandi, Norðmenn mæta Íslandi á útivelli og Makedóníu heima.

gummih@mbl.is