Snigill Baugabobbi slæðist hingað með vörum.
Snigill Baugabobbi slæðist hingað með vörum. — Ljósmynd/Erling Ólafsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Guðna Einarsson gudni@mbl.is NÁTTÚRUFRÆÐISTOFNUN Íslands opnar nýjan vef um smádýr klukkan níu í dag. Þar verða í byrjun birtar 80 greinar með myndum eftir Erling Ólafsson skordýrafræðing. Hann ætlar síðar að bæta við fleiri pistlum.

Eftir Guðna Einarsson

gudni@mbl.is NÁTTÚRUFRÆÐISTOFNUN Íslands opnar nýjan vef um smádýr klukkan níu í dag. Þar verða í byrjun birtar 80 greinar með myndum eftir Erling Ólafsson skordýrafræðing. Hann ætlar síðar að bæta við fleiri pistlum. Auðvelt verður að komast inn á pödduvefinn af forsíðu heimasíðu Náttúrufræðistofnunar, www.ni.is.

Á vefnum verður sagt frá íslenskum pöddum en einnig tegundum sem berast með varningi og á annan hátt. Sumar þeirra eru mögulegir landnemar en aðrar eiga sér enga lífsvon hér.

„Þetta er það helsta sem um tegundirnar er að segja, útbreiðslu þeirra í heiminum og á Íslandi,“ sagði Erling. En er þessi fána að stækka?

„Já, hún er að stækka. Við flytjum svo mikið inn af þessu.“

Erling hefur unnið að þessu verkefni í hjáverkum í vetur. „Ég byrjaði einhvern tímann á útmánuðum. Þetta var aðallega hugsað mér til ánægju – í staðinn fyrir að prjóna við sjónvarpið! Svo hefur þetta bara vaxið,“ sagði Erling.

Greinarnar eru skrifaðar í kringum myndir sem Erling hefur tekið. Hann segir að þær séu í raun ítarlegir myndatextar. Greinarnar eru flokkaðar til að gera þær aðgengilegri. M.a. eru flokkar um pöddur í náttúrunni, í görðum, í húsum, flækinga með vindum og slæðinga með vörum. Einnig eru nýir landnemar. Þá er hægt að velja fiðrildi, bjöllur eða aðra flokka.

Í hnotskurn
» Það sem kallað er pöddur innifelur m.a. skordýr, áttfætlur á borð við kóngulær, snigla, ánamaðka, margfætlur, landkrabba og maura svo nokkuð sé nefnt.
» Hér á landi eru þekktar um 1.200 tegundir smádýra eða padda.
» Náttúrufræðistofnun berast margar fyrirspurnir og myndir frá almenningi sem vill fræðast um ýmsar pöddur.
» Til stofnunarinnar berast einnig framandi smádýr af ýmsum tegundum sem hafa fundist hér á landi.